Hinsegin nemar þrisvar sinnum líklegri til að verða fyrir ofbeldi

Af 15.600 svarendum sögðust 8% samkynhneigðir eða tvíkynhneigðir. Hinsegin nemendur …
Af 15.600 svarendum sögðust 8% samkynhneigðir eða tvíkynhneigðir. Hinsegin nemendur reyndust mun líklegri til að hafa upplifað ofbeldi en gagnkynhneigðir jafnaldrar þeirra. AFP

Ný bandarísk rannsókn hefur leitt í ljós „átakanlega“ tíðni ofbeldis í garð hinsegin menntaskólanema. Um er að ræða fyrstu rannsóknina á landsvísu þar sem spurt er um kynhneigð bandarískra menntaskólanema en niðurstöður hennar benda til þess að samkynhneigðir og tvíkynhneigðir nemar séu mun líklegri til að upplifa þunglyndi, einelti og ofbeldi en gagnkynhneigðir samnemendur þeirra.

Rannsóknin var framkvæmd af deild innan bandarísku sóttvarnastofnunarinnar (CDC) en Jonathan Mermin, einn aðstandenda hennar, segir niðurstöðurnar átakanlegar.

Um 8% aðspurðra sögðust samkynhneigðir eða tvíkynhneigðir, en það samsvarar því að um 1,3 milljónir bandarískra menntaskólanema séu hinsegin. Þessi ungmenni voru þrisvar sinnum líklegri en gagnkynhneigð ungmenni til að hafa verið nauðgað. Þá skrópuðu þau mun oftar þar sem þeir fundu til óöryggis, en að minnsta kosti þriðjungur hafði upplifað einelti í skólanum.

Hinsegin nemendur voru tvisvar sinnum líklegri til að hafa verið ógnað eða þeir beittir ofbeldi með vopni á skólalóðinni.

Yfir 40% þeirra sem sögðust hinsegin sögðust hafa íhugað sjálfsvíg og 29% höfðu gert tilraun til sjálfsvígs einhvern tímann á þeim tólf mánuðum sem liðu áður en þeir tóku könnunina. Aðeins 1,3% gagnkynhneigðra menntaskólanema sögðust hafa notað heróín, en hlutfallið var 6% meðal hinsegin nema.

„Þjóðir eru dæmdar út frá heilsu og velferð barna sinna,“ segir Mermin. „Mörgum þætti þessi tíðni líkamlegs og kynferðislegs ofbeldi óásættanleg og eitthvað sem við ættum að bregðast skjótt við.“

Um 15.600 nemendur tóku þátt í könnuninni en þess ber að geta að þeim var ekki gefinn kostur á því að svara hvort þeir upplifðu sig sem trans.

Elizabeth Miller, framkvæmdastjóri barna- og ungmennalækninga á Children's Hospital í Pittsburgh, segir jaðarsetningu hinsegin ungmenna setja þau í meiri hættu gagnvart ofbeldisfullum samböndum.

Þá bendir hún á að rannsóknin virðist varpa ljósi á fljótanleika kynhneigðar meðal ungmenna, en meðal þeirra sem sögðust hafa komist í kynferðislega snertingu við einstakling af sama kyni eða einstaklinga af báðum kynjum, sögðust 25% gagnkynhneigðir. 13,6% þessa hóps sögðust óviss um kynhneigð sína.

Ítarlega frétt um rannsóknina má finna hjá New York Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert