Fær keisarinn í Japan að hætta?

Akihito, keisarinn í Japan.
Akihito, keisarinn í Japan. AFP

Keisarinn í Japan, Akihito, ávarpaði þjóð sína í sjónvarpi síðastliðinn mánudag en hann óttast að hann geti ekki uppfyllt embættisskyldur sínar fyrir aldurs sakir og ýjaði að breytingum. Akihito er 82 ára gamall og hefur borið keisaratignina frá árinu 1989 þegar hann tók við af föður sínum, Hirohito.

Í ávarpi sínu til japönsku þjóðarinnar kom keisarinn einnig inn á heilsufar sitt og vakti athygli á versnandi heilsu.

„Það var fyrir nokkrum árum, eftir að ég hafði í tvígang gengist undir skurðaðgerð, er ég fór að finna fyrir hrakandi heilsufari,“ sagði keisarinn í ávarpi sínu.

Akihito hefur farið í hjartaaðgerð og gengist undir meðferð vegna blöðruhálskrabbameins. Heilsufar og aldur keisarans hefur því komið til tals áður og í maí á þessu ári gaf skrifstofa keisarans út yfirlýsingu að Akihito myndi draga úr þátttöku í opinberum viðburðum.

Ekki heimilt að hætta

Keisarinn sem eitt sinn var álitinn guðlegur hefur í dag það stjórnarskrárbundna hlutverk að vera tákn japanska ríkisins og sameiningartákn þjóðar sinnar. Hann hefur engin eiginleg pólitísk völd og ber, samkvæmt lögum, að sitja í embætti til dauðadags.

Ávarp Akihito er því áhugavert fyrir þær sakir að hann gefur til kynna að hann muni á næstu árum vilja stíga til hliðar og leyfa syni sínum, Naruhito, að taka við keisaratigninni. Hann tók þó varlega til orða og minntist aldrei á afsögn en ríkisstjórnin mun væntanlega líta svo á að hans ósk sé að láta af störfum og hefja undirbúning að lagabreytingu sem heimili slíkt.

Forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, tjáði sig fljótlega eftir ávarpið og sagði að ríkisstjórnin mundi taka orð keisarans alvarlega.

„Með tilliti til skyldna keisarans og hækkandi aldurs, sem og þeirra byrða sem starfið leggur á hann, verðum við að skoða gaumgæfilega hvað við getum gert.“

AFP

Pólitísk áhrif afsagnar

Akihito hefur verið talinn táknmynd eftirstríðsára Japans. Tímabils uppbyggingar og friðarstefnu. Sjálfur skilgreinir keisarinn sig friðarsinna og hefur þrátt fyrir að hafa engin pólitísk völd verið álitinn verndari stjórnarskrárákvæða sem takmarka hernaðaruppbyggingu Japans að sögn Sheila A. Smith, sérfræðings í málefnum Japans og álitsgjafa The New York Times.

Í umfjöllun New York Times er bent á að ríkisstjórn Shinzo Abe hafi sterka pólitíska stöðu og forsætisráðherrann vilji losa um þær hömlur sem stjórnarskrá landsins setur á hernaðaruppbyggingu Japans. Allt bendir þó til að krónprinsinn, Naruhito, deili skoðunum föður síns og því verði litlar breytingar við valdhafaskiptin. Sá möguleiki er þó til staðar að núverandi stjórn nýti sér valdaskiptin til breytinga en Smith bendir þó á að lagabreyting, sem gerði Akihito mögulegt að stíga til hliðar og hleypa syni sínum að, gæti orðið erfitt verkefni fyrir stjórnmálamenn og þeir þurfi því að stíga varlega til jarðar.

„Stjórnmálamenn af bæði vinstri- og hægrivæng stjórnmálanna þurfa að vanda vel til verka. Gæta þarf þess að opna keisaraembættið ekki fyrir pólitískum áhrifum en það myndi veikja embættið.“

Slíkt gæti að hennar sögn farið illa í japönsku þjóðina, sem er þrátt fyrir allt mjög íhaldssöm þegar kemur að keisara sínum.

Í könnunum sem gerðar hafa verið meðal almennings bendir allt til þess að stór hluti japönsku þjóðarinnar styðji að keisarinn geti látið af embætti en japanska þjóðin er að eldast líkt og keisarinn og er hann því talinn eiga sér marga bandamenn sem samsama sig við hann. New York Times vísar til kannana sem sýna að allt að 85 prósent styðja ákvörðun keisarans að stíga til hliðar sökum heilsufars og aldurs.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert