Gefur von um að dóttirin sleppi á lífi

Í myndskeiðinu má sjá hina 18 ára gömlu Maida Yakubu …
Í myndskeiðinu má sjá hina 18 ára gömlu Maida Yakubu fyrir framan hóp stúlkna. Skjáskot

„Að sjá barnið sitt standandi við hliðina á hryðjuverkamanni með skotfæri um hálsinn er ekki auðvelt fyrir móður,“ segir Ester Yakubu, móðir einnar stúlknanna sem hryðjuverkasamtökin Boko Haram rændu í bænum Chibok í apríl árið 2014.

Samtökin sendu nýverið frá sér myndband þar sem dóttir konunnar, hin átján ára gamla Maida Yakubu, sést standa fyrir framan hóp stúlkna og liðsmaður samtakanna segir henni að tala í hljóðnema. Er myndbandið fyrsta vísbending fjölskyldu stúlkunnar um að hún sé enn á lífi frá því henni var rænt ásamt tvö hundruð öðrum stúlkum frá heimavistarskóla í Chibok. 

Í myndbandinu sést að hópur stúlknanna er enn á lífi en samtökin segja að aðrar hafi látist í loftárásum. „Þau ættu að vita að börn­in þeirra eru enn í okk­ar haldi,“ sagði maður sem var með and­litið hulið í mynd­band­inu, sem var birt á YouTu­be.

Í myndbandinu kynnir Yakubu sig hikandi og les svo upp yfirlýsingu frá samtökunum. Þar biður hún foreldra stúlknanna um að þrýsta á nígerísk stjórnvöld um að láta vígamenn hryðjuverkasamtaka lausa og þá muni samtökin sleppa stúlkunum. 

„Þegar ég sá myndbandið var ég mjög leið því ég sá að barnið mitt stóð við hliðina á byssumanni. Við byrjuðum öll að gráta. Ég þakka samt Guði fyrir að hún sé á lífi. Þetta myndband gefur okkur von um að dóttur okkar geti verið bjargað.“

Tveimur stúlkum hefur verið bjargað af þeim 217 sem var rænt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert