Grautarleg stefna gagnrýnd

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Stefna Donalds Trump, forsetaefnis repúblíkana, í þjóðaröryggismálum og baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi er enn óljós og ruglingsleg eftir ræðu sem hann flutti um málið í Ohio í fyrrakvöld, að mati fréttaskýrenda vestanhafs.

Í ræðunni boðaði Trump m.a. stórhert eftirlit með innflytjendum og bann við innflutningi fólks frá löndum þar sem hryðjuverkastarfsemi er alvarlegt vandamál og eftirliti með stuðningsmönnum hryðjuverkasamtaka er ábótavant. Hann sagði að leggja ætti hugmyndafræðilegt próf fyrir umsækjendur um landvistarleyfi í Bandaríkjunum til að ganga úr skugga um hvort þeir væru hlynntir bandarískum gildum, t.a.m. hvort þeir styddu trúfrelsi, jafnrétti kynjanna og réttindi samkynhneigðra. „Þeir sem trúa ekki á stjórnarskrána okkar, eða styðja óumburðarlyndi, fordóma og hatur, fá ekki að setjast að í landi okkar,“ sagði hann.

AFP

„Óframkvæmanleg“ tillaga

Trump sagði í desember sl. að meina þyrfti öllum múslímum tímabundið að koma til Bandaríkjanna vegna hættunnar á hryðjuverkum, eða þar til bandarísk yfirvöld gætu „áttað sig á því sem er að gerast“. Stjórnmálaskýrandi NBC-sjónvarpsins, Ali Vitali, segir að óljóst sé hvort aðgerðirnar sem Donald Trump boðaði í ræðunni í fyrrakvöld komi í staðinn fyrir þessa tillögu eða séu viðbót við hana. Hann hafi ekki dregið tillöguna um bann við komu múslíma til baka og hún sé enn á vefsíðu hans.

Peter Bergen, sérfræðingur í þjóðaröryggismálum, segir í grein á vef CNN-sjónvarpsins að tillaga Trumps um hugmyndafræðilega prófið virðist vera „óframkvæmanleg“. Hann dregur í efa að stuðningsmenn íslamskra hryðjuverkasamtaka viðurkenni í slíku prófi að þeir aðhyllist öfgastefnu þeirra og hyggist undirbúa hryðjuverk á laun í Bandaríkjunum.

Bergen bendir enn fremur á að Trump nefndi ekki þau lönd sem hugmyndafræðilega prófið ætti að ná til, eða löndin þar sem hryðjuverkastarfsemi telst alvarlegt vandamál. Bergen spyr hvort prófið eigi t.d. að ná til allra franskra ríkisborgara, í ljósi þess að í Frakklandi hefur hryðjuverkastarfsemi verið alvarlegt vandamál.

AFP

Misskilur hryðjuverkavána

Bergen telur að stefna Trumps í innflytjendamálum byggist á misskilningi á hættunni sem stafar af hryðjuverkastarfsemi. „Öll hryðjuverkin sem hafa verið framin í Bandaríkjunum frá 11. september [2001] voru verk bandarískra ríkisborgara eða manna með varanlegt landvistarleyfi, ekki nýrra innflytjenda eða flóttamanna. Með aðgerðum til að stemma stigu við innflutningi fólks er ekki tekist á við aðalvandamálið, „heimaræktaða“ hryðjuverkastarfsemi.“

Bergen og fleiri fréttaskýrendur segja að þótt Trump hafi gagnrýnt stefnu og frammistöðu Baracks Obama í baráttunni gegn Ríki íslams, samtökum íslamista, hafi hann að mörgu leyti boðað sömu stefnu og stjórn forsetans hefur fylgt. Trump hafi m.a. boðað samstarf við Jórdaníu, Egyptaland og Atlantshafsbandalagið, aðgerðir til að stöðva peningaflutninga til Ríkis íslams, tölvuhernað gegn samtökunum og aðgerðir til að uppræta hryðjuverkanetið al-Qaeda. Allt hafi þetta verið liður í stefnu Bandaríkjastjórnar á síðustu árum.

AFP

Með og á móti heimkvaðningu herliðsins frá Írak

Leiðarahöfundur The Washington Post segir að þótt ræða Trumps hafi að mörgu leyti byggst á „þvættingi og gorgeir“ hafi hann hitt naglann á höfuðið þegar hann hafi gagnrýnt þá ákvörðun Obama að kalla bandaríska herliðið í Írak heim því að hún hafi auðveldað Ríki íslams að leggja undir sig svæði í norðvesturhluta landsins og Sýrlandi.

Trump hefur þó verið ósamkvæmur sjálfum sér í yfirlýsingum sínum um átökin í Írak. Hann hefur haldið því fram að hann hafi alltaf verið andvígur þeirri ákvörðun George W. Bush, fyrrverandi forseta, að senda bandarískar hersveitir til Íraks árið 2003. Trump sagði þó í útvarpsviðtali árið 2002 að hann væri hlynntur innrás í Írak. Fréttaskýrandi NBC bendir einnig á að þótt Trump gagnrýni núna heimkvaðningu herliðsins hafi hann hvatt til þess árið 2008 að herliðið yrði kallað heim tafarlaust og árið áður skorað á John McCain, þáverandi forsetaefni repúblíkana, að lofa því að herliðið færi frá Írak fyrr en gert var ráð fyrir.

AFP

Aleem Maqbool, fréttaskýrandi breska ríkisútvarpsins, telur að þrátt fyrir slíkar efasemdir sérfræðinga sé líklegt að ræða Trumps leggist vel í stuðningsmenn hans í Bandaríkjunum. Þótt stjórnarerindrekum Evrópuríkja gremjist yfirlýsingar Trumps í utanríkismálum snúist kosningarnar ekki um þá, heldur kjósendur eins og þá sem hlustuðu á hann í Ohio og fögnuðu orðum hans. Þessir kjósendur telja stefnu hans til marks um föðurlandsást frekar en hættulega þjóðernishyggju.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert