Ákærðar fyrir að veita flóttafólki húsaskjól

Flóttafólk í Danmörku.
Flóttafólk í Danmörku. AFP

Réttarhöld í máli borgarfulltrúa í Árósum og sambýliskonu hans hófust í gær en konurnar eru sakaðar um að hafa brotið dönsku útlendingalöggjöfina með því að hýsa tvo flóttamenn í september í fyrra þegar mikill fjöldi flóttafólks kom til landsins.

Maria Sloth er borgarfulltrúi Enhedslisten sem er bandalag vinstri grænna (Rauð-græna bandalagið). Hún og sambýliskona hennar, Anne Hegelund, veittu tveimur Afríkubúum húsaskjól yfir nótt og keyptu fyrir þá miða með ferju til Noregs daginn eftir.

Þegar Sloth greindi frá þessu í viðtali við bæjarblaðið lagði borgarfulltrúi Íhaldsflokksins, De Konservative, Marc Perera Christensen, fram kæru hjá lögreglu þar sem Sloth og Hegelund, sem einnig er félagi í Enhedslisten og stefnir á þing fyrir flokkinn, hafi brotið útlendingalög með því að aðstoða fólk sem væri með ólöglegum hætti í Danmörku.

Saksóknari hjá lögreglunni, Jacob Balsgaard Nielsen, sagði við þingfestingu í gær að farið væri fram á fangelsisdóm yfir þeim fyrir að aðstoða fólk sem væri með ólöglegum hætti í landinu. En vegna sérstakra aðstæðna á þessum tíma í Danmörku væri embættið tilbúið að falla frá fangelsisrefsingu og gera sátt um að þær greiddu fimm þúsund danskar krónur í sekt fyrir brot sitt.

Þær báru ekki vitni í gær en hafa í viðtölum borið fyrir sig mannúðarsjónarmið og að þær sjái ekki eftir því að hafa veitt fólkinu aðstoð.

Sjá nánar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert