Telur rétt að umskera allar konur

Ismail Berdiyev ásamt Vladimír Pútín, forseta Rússlands.
Ismail Berdiyev ásamt Vladimír Pútín, forseta Rússlands. AFP

Háttsettur íslamskur trúarleiðtogi í Rússlandi, Ismail Berdiyev, sagði í gær í samtali við Interfax-fréttaveituna að æskilegt væri að allar konur væru umskornar. Ummælin hafa vakið hörð viðbrögð en Berdiyev fer fyrir samtökum múslima í Norður-Kákasus í Rússlandi.

Haft er eftir Berdiyev að umskurður kvenna, sem hefur verið fordæmdur víða um heim, kæmi ekki í veg fyrir að konur gætu sinnt móðurhlutverki sínu og ef allar konur væru umskornar yrði minna um kynlíf utan hjónabands. Trúarleiðtogainn dró ummæli sín síðar til baka og sagðist hafa verið að gera að gamni sínu. Íslam kallaði alls ekki eftir umskurði kvenna.

Fyrrverandi talsmaður rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, Vsevolod Chaplin, tók undir með Berdiyev og sagði að múslimar hefðu rétt á þessari gamalgrónu hefð. Hins vegar væri líklega engin þörf á að umskera allar konur. Þannig þyrfi ekki að umskera konur sem tilheyrðu rétttrúnaðarkirkjunni enda stunduðu þær ekki kynlíf utan hjónabands.

Berdiyev lét ummæli sín falla í tengslum við skýrslu sem birt var á mánudaginn þar sem fjallað er um umskurð ungra stúlkna á trúarlegum forsendum í fjallaþorpum í héraðinu Dagestan í Norður-Kákasus. Haft er eftir háttsettum embættismanni hjá rússneska heilbrigðisráðuneytinu, Oleg Salagai, að umskurður kvenna fæli í sér misþyrminu og ekkert jákvætt væri hægt að segja um hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert