Sundmennirnir farnir heim

Bandaríska ólympíunefndin baðst afsökunar á óásættanlegri hegðun fjögurra bandarískra sundmanna á Ólympíuleikunum í Ríó í gærkvöldi. Sundmennirnir lugu til um að hafa verið rændir af vopnuðum manni í borginni. Þrír sundmannanna eru farnir heim til Bandaríkjanna.

Eftir að hafa yfirheyrt þrjá af sundmönnunum greindi lögreglan frá því að ekkert væri hæft í því að þeir hefðu verið rændir. Tveir þeirra, Gunnar Bentz og Jack Conger, fengu að fljúga frá Brasilíu í gærkvöldi, Ryan Lochte var þegar farinn til Bandaríkjanna en sá fjórði, James Feigen, er enn í Brasilíu. 

Bentz og Conger voru stöðvaðir þegar þeir voru komnir um borð í farþegaþotu á flugvellinum í Ríó á miðvikudag og færðir til yfirheyrslu.

Lochte hafði upphaflega greint frá því að þeir hafi verið rændir af vopnuðum manni þegar þeir voru á leiðinni heim á hótel eftir að hafa verið úti á lífinu. Yfirmaður lögreglunnar í Ríó, Fernando Veloso, segir ekki rétt að þeir hafi verið rændir. „Þeir voru ekki fórnarlömb glæpamanna eins og þeir halda fram,“ sagði hann við fjölmiðla í gær. Fjórmenningarnir eru handhafar gullverðlauna í 4x200 metra skriðsundi á ÓL í Ríó.

Að sögn Veloso vann einn þeirra eða jafnvel fleiri skemmdarverk á salerni á bensínstöð og buðust þeir síðan til þess að greiða fyrir skemmdirnar. Bandaríkjamennirnir greiddu fyrir skemmdirnar og yfirgáfu síðan staðinn eftir að vopnaðir öryggisverðir gripu inn í. Einn öryggisvarðanna beindi byssu að einum sundmannanna. Hann varaði sundmennina við því að þeir gætu átt yfir höfði sér saksókn fyrir að bera ljúgvitni og skemmdarverk. 

Svo virðist sem fallið hafi verið frá því þar sem lögmaður sundmannanna greindi frá því seint í gærkvöldi að Bentz og Conger hafi fengið heimild hjá sérstökum ólympíudómi til þess að yfirgefa landið. Feigen var hins vegar ekki kominn með heimild til þess að yfirgefa landið en vonir standa til þess að hann fái vegabréf sitt afhent innan tíðar svo hann geti haldið heim aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert