Youtube-stjarna ber af sér áróðurssakir

Louis Cole neitar því að fá greitt fyrir áróður fyrir …
Louis Cole neitar því að fá greitt fyrir áróður fyrir Norður-Kóreu. Skjáskot/Youtube

Vinsæl ferðamyndbandsbloggari á Youtube hefur neyðst til að sverja af sér að að hafa fengið greitt frá stjórnvöldum í Norður-Kóreu fyrir að búa til jákvæð myndbönd um alþýðulýðveldið. Hann hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir að tala ekki um raunveruleika lífsins í landinu.

Louis Cole er er með um 1,8 milljón fylgjenda að Youtube-rás sinni, FunForLouis þar sem hann birtir myndbönd frá ferðalögum sínum um víða veröld. Nýlega fór hann í tíu daga ferð um Norður-Kóreu með samtökum sem skipuleggja brimbretta- og hjólabrettanámskeið fyrir leiðsögumenn og börn.

Myndböndin frá Norður-Kóreu sættu strax gagnrýni í ummælakerfi Youtube og síðan á Twitter fyrir að taka ekki á erfiðleikum Norður-Kóreubúa undir harðstjórninni þar. Það gekk svo langt að hann var sakaður um að framleiða áróður fyrir ríkisstjórn Kim Jong-un.

Cole svaraði fyrir sig með að birta myndband á rásinni þar sem hann hafnar því alfarið að hafa þegið fé frá Norður-Kóreumönnum gegn því að tala vel um landið. Varði hann myndböndin með þeim orðum að hann hafi aðeins getað sýnt það sem hann sá sem ferðamaður. Auk þess hafi hann ekki viljað stofna samtökunum sem hann fór með í hættu.

„Ég er ekki sammála hugmyndafræði Norður-Kóreu en mér er annt um og elska fólkið þar,“ segir hann þar.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu eru þekkt fyrir að stjórna með harðri hendi hvernig þeir fáu ferðamenn sem þangað fara sjá og gera. Margir þeirra hafa lent í því að hald hefur verið lagt á myndir og myndbönd sem þeir hafa tekið þegar þeir yfirgefa landið.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert