Ætla sér virkara hlutverk í Sýrlandi

Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands.
Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands. AFP

Tyrknesk stjórnvöld ætla héðan í frá að vinna að því með virkari hætti en áður að binda enda á stríðið í Sýrlandi. Þetta sagði Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, við blaðamenn í morgun.

Hann ítrekaði um leið að Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, mætti ekki hafa áhrif á framtíð landsins. Hann ætti þar engu hlutverki að gegna.

Hann sé þó forseti landsins í dag, „hvort sem okkur líkar það betur eða verr,“ sagði Yildirim.

Átök hafa stigmagnast að undanförnu í borginni Hassakeh, en þar hefur sýrlenski stjórnarherinn herjað á vígi kúrdískra vígamanna.

Hassakeh er aðeins í um áttatíu kílómetra fjarlægð frá landamærum Tyrklands og Sýrlands. Kúrdískir vígamenn samtakanna YPG hafa borgina á valdi sínu, en stjórnarher Assads reynir nú eins og hann getur að hrekja þá burt.

Tyrkir eru andstæðingar Assads en þeir berjast jafnframt gegn kúrdíska Verkamannaflokknum PKK, bandamanni YPG.

„Á næstu sex mánuðum munum við leika virkara hlutverk,“ sagði Yildirim. Hann bætti því við að friður gæti ekki komist á í Sýrlandi á meðan Assad væri við völd. Ekki mætti heldur gera samkomulag við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams eða PKK.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert