Dæmdur fyrir morð sem hann var ekki viðstaddur

Dauðadómi Jeffreys Wood mótmælt.
Dauðadómi Jeffreys Wood mótmælt. AFP

Dómstóll í Texas ákvað að fresta aftöku 43 ára gamals karlmanns í gær en maðurinn hafði verið dæmdur til dauða fyrir morð sem hann var ekki viðstaddur. Til stóð að taka manninn, Jeffrey Wood, af lífi á miðvikudaginn en af því verður ekki.

Fram kemur í frétt AFP að Wood hafi  setið í pallbíl fyrir utan bensínstöð í bænum Kerrville í Texas í janúar 1996 þegar vinur hans rændi hana og skaut afgreiðslumanninn til bana. Wood var dæmdur til dauða á grundvelli laga sem kveða á um að hver sá sem tekur þátt í glæpsamlegu athæfi sem leiðir til dauða sé jafn ábyrgur óháð því hvort hann hafi valdið dauða viðkomandi.

Lögfræðingar Woods hafa haldið því fram að hann réttarhöldin yfir honum hafi ekki verið sanngjörn og að hann væri fórnarlamb rangs framburðar og vísindalegra sönnunargagna. Dómstólinn féllst á þetta þar sem að í ljós kom framburður geðlæknis, sem bar vitni um andlega heilsu Wood, reyndist síðar rangur.

Fullyrt er að Wood hafi greindarvísitölu barns og að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að vinur hans, Daniel Reneau sem hann hafði aðeins kynnst tveimur mánuðum áður, væri vopnaður byssu þegar hann fór inn í bensínstöðina. Fram að því hafði Wood aldrei komist í kast við lögin.

Reneau hafði ekki í hyggju að myrða afgreiðslumanninn en skaut hann í höfuðið þegar hann neitaði að afhenda honum peninga í öryggishólfi. Þegar Wood heyrði skothvellinn hljóp hann inn í bensínstöðina. Hann hjálpaði Reneau síðan að fjarlægja spólu úr eftirlitsmyndavélakerfi áður en þeir flúðu af vettvangi með peningana úr hólfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert