Eldri bróðir Omran látinn

Ljósmyndin fræga af Omran Daqneesh.
Ljósmyndin fræga af Omran Daqneesh. AFP

Eldri bróðir Omran Daqneesh, sýrlenska drengsins sem grætti heimsbyggðina fyrr í vikunni, lést í dag af sárum sínum.

Bræðrunum var bjargað úr rústum húss sem gjöreyðilagðist í loftárásum Rússa í sýrlensku borginni Aleppo. Ljósmynd af Omran, þar sem hann sat í sjúkrabíl, rykugur, blóðugur og ringlaður, vakti fljótt heimsathygli. Byrjað var að dreifa henni á samfélagsmiðlum á miðvikudagskvöldið og í kjölfarið birtist hún í flestum fjölmiðlum heims.

Eldri bróðir Omran, hinn tíu ára Ali Daqneesh, særðist alvarlega í loftárásinni á miðvikudag, að sögn sýrlensku mannréttindavaktarinnar. Hann lést af sárum sínum í dag.

Aðrir í fjölskyldunni lifðu árásina af.

Ljósmyndin af Omran þykir sýna á táknrænan hátt hvernig daglegt líf íbúa í Aleppo er og hefur verið undanfarin ár, allt frá því að stríð braust út í Sýrlandi fyrir rúmum fimm árum.

Átökin í Aleppo hafa stigmagnast undanfarnar vikur þar sem sýrlenski stjórnarherinn, með stuðningi flughers Rússa, hefur herjað á vígi uppreisnarmanna í borginni. Mörg hundruð hafa látið lífið í árásunum.

Frétt Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert