Flúði úr kynlífsþrælkun vígamanna Ríkis íslams

Liðsmenn Ríki íslamss í Líbíu hafa rænt rúmlega 500 flóttamönnum …
Liðsmenn Ríki íslamss í Líbíu hafa rænt rúmlega 500 flóttamönnum á sl. 18 mánuðum. AFP

Liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams í Líbíu hafa numið á brott að minnsta kosti rúmlega 500 flóttamenn sl. 18 mánuði. Konum úr röðum flóttamanna hefur m.a. verið haldið sem kynlífsþrælum og þær notaðar til að verðlauna vígamenn samtakanna. Ruta Fisehaye er ein þeirra kvenna.

Ruta Fisehaye, er 24 ára Erítreubúi, sem var rænt í Líbíu ásamt öðrum flóttamönnum á leið til  Evrópu í júní í fyrra. Hún var í flutningabílalest sem var stöðvuð á hraðbraut við norðurströnd landsins. Vopnaðir og grímuklæddir ræningjarnir aðskildu múslimana í hópnum frá þeim kristnu og karla frá konum. „Við vorum viss um að við myndum deyja,“ sagði Fisehaye sem vissi að þau hefðu verið tekin fanga af Ríki íslams.

Frá því að Ríki íslams fór að styrkja stöðu sína í Líbíu 2014 hafa um 240.000 hælisleitendur og flóttamenn ferðast í gegnum þetta stríðshrjáða land í leit að betra lífi í Evrópu. Á sl. 18 mánuðum hafa vígamenn samtakanna rænt a.m.k. 540 flóttamönnum í sex mismunandi fyrirsátum að sögn Reuters-fréttastofunnar.  Að minnsta kosti 63 konum hefur síðan verið nauðgað, þær seldar eða hnepptar í ánauð og segir Reuters samskonar meðhöndlun á flóttamönnum tíðkast hjá samtökunum í Sýrlandi og Írak.

„Vitið þið hverjir við erum?“

Fisehaye átti langa för að baki í leit að betra lífi áður en hún féll í hendur vígamönnum Ríkis íslams. Í fyrstu  gekk ferð hennar vel og hún trúði smyglurunum sem sögðu enga ástæðu til að hafa áhyggjur af liðsmönnum Ríkis íslams. „Ég átti aldrei von á að sjá skipulagt ríki eins og þeirra í Líbíu,“ segir hún.

Nóttina sem Fisehaye var rænt var henni  skipað aftan á vörubíl ásamt öðrum kristnum í hópnum og því næst var ekið með þau tímunum saman. Nokkrir karlanna gerðu tilraun til að flýja og voru flestir ýmst skotnir eða þeir náðust á ný. Farið var með konurnar á yfirgefið sjúkrahús í bænum Nawfaliyah þar sem leitað á þeim að skartgripum og öðrum verðmætum.

Næsta morgun kom einn leiðtoga vígamannanna ásamt erítrískum dreng sem hann lét túlka fyrir sig.

„Vitið þið hverjir við erum?“ spurði hann. Konurnar voru hljóðar.

„Við erum al-dawla al-Islamiyyah,“ sagði hann og notaði arabíska heitið fyrir Ríki íslams og minnti þær því næst á að hópurinn hefði myrt 30 kristna íbúa Erítreu og Eþípíu nokkrum mánuðum áður. Kalífinn myndi hins vegar þyrma lífi kvennanna ef þær snérust til íslamstrúar.

Konunum var sagt að þær myndu öðlast viss réttindi ef …
Konunum var sagt að þær myndu öðlast viss réttindi ef þeir snérust til íslamstrúar. AFP

Íslam skref á leiðinni í átt að frelsi

Fisehaye leist illa á hugmyndina um trúskiptin. Nokkrum mánuðum og tveimur flóttatilraunum síðar, hljómaði hugmyndin hins vegar ekki jafn illa.  Þá höfðu konurnar verið fluttar til bæjarins Harawa, þar sem þær bjuggu ekki lengur við  loftárásir, barsmíðar eða hótanir um kynferðisofbeldi.

Fisehaye tók upp nafnið Rima við trúskiptin, sem höfðu dómínóáhrif á hinar konurnar sem fylgdu margar í kjölfarið. „Ég sá enga aðra leið,“ segir hún. „Íslam var eitt skref á leiðinni í átt að frelsi. Þeir sögðu okkur að við myndum öðlast réttindi sem múslimar.“

Strax að trúskiptunum loknum voru konurnar látnar klæðast niqab, búrku sem einnig hylur augun, og fengu að hafa samband við fjölskyldu sína.

„Ekki hafa áhyggjur af því sem menn kunna að gera þér“

Nokkrum mánuðum síðar versnaði hins vegar ástandið í Harawa og matur varð af skornum skammti. Staða kvennanna breyttist þessu samhliða og þeim var nú tilkynnt að þær væru „sabaya“ eða þrælar og eigendur þeirra gætu nýtt þær sem kynlífsþræla, selt þær eða gefið. „Ekki hafa áhyggjur af því sem menn kunna að gera þér,“ sagði vörðurinn sem hafði vingast við þær. „Hugsaðu bara um hvar þú stendur gagnvart Allah.“

Einn yfirmannanna skráði síðan nöfn þeirra og aldur í kladda og bað þær að lyfta blæjunni svo hann gæti séð andlit þeirra. Viku síðar sendi hann eftir yngstu konunum tveimur sem voru 15 og 18 ára.

Ástandið hélt áfram að versna og Fisehaye sá m.a. 9 ára barn skjóta fullorðinn mann á torgi bæjarins Sirte. Þá uppskáru hún og hinar konurnar sem enn voru í haldi barsmíðar er þær reyndu að krefjast betri meðferðar á grundvelli þess að þær væru nú múslimar.  

„Hélt að hann ætlaði að hjálpa mér“

Erítreskur vígamaður samtakanna, sem oft hafði komið að skoða konurnar, keypti Fisehaye síðan í febrúar á þessu ári. „Ég hélt að hann ætlaði að hjálpa mér,“ sagði Fisehaye og segir hann hafa verið vingjarnlegan í upphafi. „Kannski hafði hann laumað sér í raðir Ríkis íslams og var ekki raunverulega einn af þeim. Ég fór að leyfa mér að vona.“ Þess í stað nauðgaði hann henni ítrekað vikum saman.

„Enginn sýndi okkur þann hluta kóransins sem segir að þeir gætu gert okkur að þrælum,“ segir hún. „Þeir vildu eyðileggja okkur …það var svo mikil illska í hjarta þeirra.“

Hún lagði á ráðin um flótta, en fann enga leið til að sleppa.

Trúarlögreglan skilaði þeim til eigenda sinna

Eigandi Fisehaye lánaði hana því næst til vígamanns frá Senegal, Abu Hamza, sem hafði komið með konu sína og þrjú börn að framvarðalínu átakanna.

Fisehaye átti að vinna launalaust í eldhúsi hans. Hún segir vinnuna hafa verið þolanlega allt þar til Abu Hamza kom með eina eritresku flóttakonuna heim nótt eina og nauðgaði henni. „Hún öskraði. Öskraði. Það reif í hjarta mitt,“ segir Fisehaye. „Konan hans stóð við dyrnar og grét.“

Hún hvatti eritresku konuna til að flýja með sér, en trúarlögreglan stöðvaði þær fljótt og skilaði þeim til eigenda sinna. Eigandi Fisehaye flutti hana í hús sem hann deildi með tveimur öðrum vígamönnum og konum þeirra. Konurnar sögðu Fisehaye að þeim væri ítrekað nauðgað.  „Það var enginn sem gat hjálpað mér. Þannig að ég þagði og sætti mig við misnotkunina,“ sagði önnur þeirra. „Ég hætti að berjast á móti. Hann gerði það sem han vildi við mig.“

Fisehaye fór ásamt fjölda annarra flóttamanna yfir Miðjarðarhafið í maí …
Fisehaye fór ásamt fjölda annarra flóttamanna yfir Miðjarðarhafið í maí í leit að betra lífi í Evrópu. AFP

Í apríl á þessu ári fréttu Fisehaye og konurnar sem hún bjó með að til stæði að selja eina þeirra til annars manns. Fréttirnar urðu til þess að þær ákváðu að reyna flótta.

Þær þóttust hringja í fjölskyldu sína, en áttu þess í stað í viðræðum við eritíska smygglara í höfuðborginni Trípólí. Þær stúderuðu venjur eigenda sinna og fóru í rannsóknarleiðangra út í hvert skipti sem einn mannanna skildi lykilinn eftir hjá þræl sínum, en tók son hennar með sér.

Smyglarinn lofaði að greiða bílinn

Loks um miðjan apríl létu þær verða af því að flýja og tóku 60 dínara, tæpar 5.000 krónur, úr tösku eins þeirra og stoppuðu leigubíl. Fisehaye fullvissaði bílstjórann um að þær væru þernur sem vinnuveitandi hefði svindlað á og samdi við hann um að aka þeim til borgarinnar Bani Walid í fimm tíma fjarlægð fyrir 750 dínara. Hún gaf upp símanúmer eritreíska smyglans sem lofaði að greiða bílinn þegar þær kæmu til borgarinnar.

Ferðin tók að lokum 12 tíma og smyglarinn greiddi leigubílinn áður en hann flutti þær í varðhald. Þar grétu þær af gleði er þær klæddu þær sig úr búrkunum og báðu fyrir flóttamönnunum sem enn sættu þrældómi.

Fisehaye fékk því næst lánaðan síma og hringdi í föður sinn í Erítreu þar sem fjölskylda og vinir lögðust á eitt við að greiða skuld hennar við smyglarann og söfnuðu að auki 2.000 dollurum til að koma henni um borð í bát á leið til Evrópu.

Fisehaye sigldi yfir Miðjararhafið í maí sl. þegar 1.133 flóttamenn og hælisleitendur drukknuðu á sjóleiðinni til Evrópu. Hún fylgdi slóð margra annarra hælisleitenda og flóttamanna í gegnum Ítalíu og Austurríki og var komin til Þýskalands mánuði eftir flóttann. Hún hefur nú sótt um hæli þar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert