Trump eyðir meira en áður

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Donald Trump, forsetaefni repúblikana, eyddi tvöfalt hærri upphæð í kosningabaráttu sína í júlí en í mánuðinum þar á undan. Hann eyðir þó enn mun minna en Hillary Clinton, forsetaefni demókrata og keppinautur hans.

Alls varði Trump 18,5 milljónum dala, sem jafngildir um 2,2 milljörðum íslenskra króna, í baráttuna í síðasta mánuði. Til samanburðar eyddi kosningateymi Clintons 38 milljónum dala eða 4,4 milljörðum króna.

Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að Trump hafi varið meira en 420 þúsundum dala í að kaupa sérstaka hatta sem eru merktir Trump. Hann er tiltölulega nýbyrjaður að nota peninga í sjónvarpsauglýsingar.

Kosningateymi Trumps hefur ekki eytt stórum fjárhæðum í baráttuna, sérstaklega þegar eyðslan er borin saman við kosningabaráttu Barack Obamas og Mitt Romneys árið 2012.

Alls varði Trump 7,8 milljónum dala í baráttuna í júní, samkvæmt nýjum tölum, en fjárhæðin var öllu hærri í síðasta mánuði, eins og áður sagði, eða 18,5 milljónir dala.

Kosningateymi Trumps safnaði jafnframt fjárframlögum upp á 37 milljónir dala í síðasta mánuði, borið saman við 52 milljónir dala hjá Clinton.

Hillary Clinton.
Hillary Clinton. AFP

Búist er við því að Trump muni eyða fúlgum fjár, meira en nokkru sinni fyrr, í næsta mánuði, en kosningateymi hans hyggst þá senda frá sér fleiri sjónvarpsauglýsingar en það hefur áður gert. Þær þykja ansi dýrar, en kosningateymi Clintons hefur þegar varið yfir sextíu milljörðum króna í slíkar auglýsingar á síðustu tveimur mánuðum.

Um 700 manns starfa í teymi Clintons, tífalt fleiri en hjá Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert