Tuttugu létust í sjálfsmorðssprengjuárás

Ekki er langt síðan sjálfsmorðssprengjuárás varð sex manns að bana …
Ekki er langt síðan sjálfsmorðssprengjuárás varð sex manns að bana í bænum Mogadishu í Sómalíu. AFP

Minnst tuttugu manns létu lífið í sjálfsmorðssprengjuárás í bænum Galkayo í Sómalíu í dag, sunnudag. Árásin var gerð á markaði í bænum og lagði svartan reyk yfir bæinn í kjölfar sprengingarinnar. Þá gerði hópur herskárra manna áhlaup á opinbera byggingu og átti í skotbardaga við öryggisverði. Sprengingin reif upp þök nokkurra bygginga og dreifðust brot úr bárujárni og annað brask víða um svæðið.

Herskáu samtökin Shabab hafa lýst yfir ábyrgð á verknaðinum og segja þrjátíu manns hafa fallið. Ekki liggur ljóst fyrir hver er rétt tala látinna en sómölsk heilbrigðisyfirvöld og íbúar segja fjölda látinna þó vera nær tuttugu. Þá séu nokkrir tugir særðir.

Bandaríkin fylgjast grannt með

Bandarísk yfirvöld fylgjast í auknum mæli með gangi mála í Sómalíu en hinn 10. ágúst aðstoðuðu bandarískar sérsveitir sómalska hermenn við að ráða af dögum nokkra meðlimi Shabab-samtakanna en samkvæmt sómölskum yfirvöldum féllu áhrifamiklir liðsmenn samtakanna í aðgerðinni. Þá hafa loftárásir Bandaríkjahers orðið fjölda meðlima Shabab að bana á undanförnum árum. 

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun á morgun eiga samræður um málefni Sómalíu með afrískum ráðamönnum í Nairobí, höfuðborg Kenía, þar sem hann mun einnig ræða Suður-Súdan.

Kosningar framundan

Bæði þing- og forsetakosningar eru á dagskrá í Sómalíu í ár en vegna óstöðugleika og óskilvirkni opinberra stofnana, munu almennir borgarar ekki ganga að kjörborðinu. Þess í stað mun hópur öldunga velja fulltrúa sem þá munu velja stjórnmálamennina.

Sómalskir fræðimenn hafa gagnrýnt áformin og segja ríkið beita ferlinu til að halda völdum og fleyta sér áfram á meiri fjárframlögum frá öðrum ríkjum á borð við Bandaríkin. 

„Það er ríkjandi viðhorf almennings í Sómalíu að þetta kosningaferli verði ekki frjálst, sanngjarnt og gagnsætt eins og fastlega er haldið fram,“ segir Mohamud M. Uluso, fyrrverandi sómalskur embættismaður.

Frétt New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert