Tyrkir verði að uppfylla öll skilyrði

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. /AFP

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir ekki koma til greina að Tyrkir fái að ferðast án vegabréfsáritunar til Evrópusambandsríkja frá og með október, nema að Ankara uppfylli allar kröfur, þar á meðal að gerðar verði breytingar á lögum landsins gegn hryðjuverkum.

Fyrr í þessum mánuði sagði Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, að ríkisstjórn hans gæti hætt að veita aðstoð til að stemma stigu við flæði flóttamanna og innflytjenda til Evrópu ef Evrópusambandið slakaði ekki á reglum um ferðalög Tyrkja til Evrópuríkja.

Ummæli ráðherrans juku á togstreituna sem ríkir milli Brussel og Ankara í kjölfar misheppnaðrar valdaránstilraunar í Tyrklandi 15. júlí. Evrópa hefur verið uggandi síðan tilraunin var gerð og hafa yfirvöld í álfunni löngum óttast að tyrkneskum lögum gegn hryðjuverkum sé í megindráttum beitt gagnvart andófsmönnum og gagnrýnendum forseta landsins, Tayyip Erdogan.

„Spurningin um ferðalög án vegabréfsáritunar, sem með beinum hætti tengist samkomulagi um meðhöndlun flóttamanna, getur þá aðeins verið sett á 1. október að öllum skilyrðum uppfylltum,“ sagði Juncker á árlegri ráðstefnu í Austurríki í dag. „Lögum gegn hryðjuverkum má ekki beita til að fangelsa fræðimenn, vísindamenn og blaðamenn. Það er ekki sú baraátta gegn hryðjuverkum sem átt er við,“ bætti Juncker við.

Brussel vill að Tyrkir slaki á löggjöfinni en Ankara hefur hafnað því og segja lögin gegna mikilvægu hlutverki í baráttunni við íslamska ríkið og kúrdískar hersveitir. Þá eru Tyrkir ævareiðir yfir viðbrögðum Evrópusambandsins vegna valdaránstilraunarinnar misheppnuðu sem kostaði 240 manns lífið.

Frá valdaránstilrauninni hafa yfir 17 þúsund manns verið handteknir, og tugþúsundum til viðbótar verið vikið frá störfum. Tyrknesk yfirvöld hafa kennt múslímska klerkinum Fethullah Gulen um valdaránstilraunina. Gulen neitar því að hafa átt að því aðild og hefur fordæmt valdaránstilraunina.

Frétt Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert