29 fórnarlambanna börn og unglingar

AFP

Ekki hefur tekist að bera kennsl á ungling sem framdi sjálfsvígsárás í brúðkaupsveislu á laugardag. 51 lést í árásinni.

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdoğan, segir að árásarmaðurinn sé 12 til 14 ára gamall og að ódæðið hafi verið framið í nafni Ríkis íslams. 

Samkvæmt tyrkneskum fjölmiðlum eru flest fórnarlambanna börn og unglingar eða 29 af þeim 44 sem borin hafa verið kennsl á. Að minnsta kosti 22 fórnarlambandanna eru yngri en 14 ára.

Erdogan segir Ríki íslams hafa undanfarin ár reynt að festa sig í sessi í borginni Gaziantep þar sem árásin var gerð. Hún er aðeins 60 km frá landamærum Sýrlands og flestir flóttamenn sem koma frá Sýrlandi koma til borgarinnar.

AFP

Í dagblaðinu Hurriyet kemur fram að verið sé að rannsaka lífsýni úr árásarmanninum til þess að fá upplýsingar um hver hann er, aldur hans og þjóðerni.

Mögulegt sé að hann hafi komið yfir landamærin frá Sýrlandi en einnig að hann tilheyri tyrkneskum hópi vígasamtakanna. Liðsmenn Ríkis íslams sé að finna í Gaziantep og einnig í Istanbul. 

Brúðhjónin, sem koma frá Kúrdahéraðinu Siirt, sluppu heil á húfi en um 100 brúðkaupsgestir særðust í árásinni. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert