Alice Cooper í Hvíta húsið?

Verður Alice Cooper næsti forseti Bandaríkjanna? Cooper hefur tilkynnt að …
Verður Alice Cooper næsti forseti Bandaríkjanna? Cooper hefur tilkynnt að hann bjóði sig fram undir slagorðinu „Þjakaður maður fyrir uggandi tíma“. AFP

Donald Trump og Hillary Clinton fengu í dag nýjan keppinaut um embætti Bandaríkjaforseta þegar rokkarinn Alice Cooper tilkynnti að hann gæfi kost á sér. Cooper, sem á m.a. smellina „Schools Out“ og „No More Mr. Nice Guy“  býður sig fram undir slagorðinu „Þjakaður maður fyrir uggvænlega tíma.“

Rokkarinn, sem er orðinn 68 ára, hefur um áratuga skeið átt dyggan hóp stuðningsmanna en kosningavefsíða Coopers bendir þó til þess að hann taki framboð sitt ekki of alvarlega.

Meðal kosningaloforða Coopers er að portretti af Lemmy heitnum, söngvara þungarokkssveitarinnar Motörhead, verði bætt í hóp lágmyndanna af þeim fjórum Bandaríkjaforsetum sem nú prýða  Mount Rushmore og að grínistinn Groucho Marx verði settur á 50 dollara seðilinn.

Þá hvetur rokkarinn, sem hefur lengi notið mikilla vinsælda í Bretlandi, bresk stjórnvöld til að setja portrett gamanleikarans Peter Sellers á 20 punda seðilinn.

Kosningaherferð Coopers hefur fram að þessu að mestu snúist um að selja varning tengdan söngvaranum og endurútgáfu lags hans „Elected“ frá 1972. Lagið naut mikilla vinsælda þegar Richard Nixon náði endurkjöri sem forseti Bandaríkjanna.

Þótt Cooper þyki ekki líklegur til sigurs hefur annar tónlistarmaður – rapparinn Kanye West – heitið því að bjóða sig fram til forseta árið 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert