Ekki öruggt að árásarmaðurinn hafi verið barn

Hugað að gröfum fórnarlamba árásarinnar á brúðkaupið í Gaziantep. Forsætisráðherra …
Hugað að gröfum fórnarlamba árásarinnar á brúðkaupið í Gaziantep. Forsætisráðherra segir fyrri fregnir af að árásarmaðurinn hafi verið á barnsaldri hafa byggst á ágiskunum vitna. AFP

Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, sagði í dag yfirvöld ekki vita hvort barn hefði borið sprengjubeltið sem notað var í sjálfsvígsárás á brúkaup í bænum Gaziantep, þar sem 54 létu lífið nú um helgina.

Áður hafði verið haft eftir Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta að 12-14 ára barn hefði borið sprengjubeltið og árásin sögð vera verk hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams.

Yildrim sagði hins vegar í dag ekkert enn vera vitað um það hverjir bæru ábyrgð á sprengingunni. Þá hefðu fyrri yfirlýsingar um að árásarmaðurinn hefði verið barn að aldri byggst á ágiskunum vitna.

29 þeirra sem fórust í árásinni voru yngri en 18 ára og hefur fréttavefur BBC eftir einum tyrkneskum embættismanni að 22 þeirra sem fórust hafi verið yngri en 14 ára.

66 manns eru enn á sjúkrahúsi eftir árásina og er ástand 14 þeirra alvarlegt, að sögn Dogan-fréttastofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert