Bað malísku þjóðina afsökunar

Ahmad Al Faqi Al Mahdi í réttarsalnum í morgun.
Ahmad Al Faqi Al Mahdi í réttarsalnum í morgun. AFP

Malískur uppreisnarsinni bað malísku þjóðina afsökunar eftir að hann lýsti sig sekan um að hafa fyrirskipað árásir á sögufræga staði í Timbuktu árið 2012 og eyðilagt menningarleg verðmæti.

„Ég bið þá afsökunar og ég vona að þeir líti á mig eins og soninn sem villtist af leið,“ sagði Ahmad al-faqi al-Mahdi við réttarhöld hjá Alþjóðastríðsglæpadómstólnum sem eru nýhafin í  Haag.

Hann bætti við að honum þætti þetta afar leitt og að hann sæi eftir því að hafa valdið þessum skaða.

Mahdi játaði að hafa fyrirskipað árásir á níu helgidóma, ásamt moskunni Sidi Yahia frá 30. júní til 11. júlí árið 2012, þegar vígamenn náðu valdi á svæði á norðurhluta Malí.

Mahdi er fyrsti íslamski öfgasinninn sem er ákærður af stríðsglæpadómstólnum og fyrsta manneskjan til að vera ein og sér sökuð um að eyðileggja menningarleg verðmæti.

„Ég óska eftir því að almenningur í Timbuktu veiti mér miskunn,“ sagði hann og bætti við að hann óskaði eftir fyrirgefningu „forfeðra grafhýsanna sem ég hef eyðilagt“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert