Belgísk djassgoðsögn látin

Belgíska djassgoðsögnin „Toots“ Thielemans er látin eftir sjötíu ára feril sem fremsti munnhörpuleikari heims.

Jean-Babtiste Frederic Isidore Thielemans, þekktur sem Toots, lést í svefni á sjúkrahúsi í Brussel snemma í morgun, 94 ára gamall.

Toots steig fram á sjónarsviðið þegar hann fór í tónleikaferð um Evrópu með Benny Goodman árið 1950. Eftir það færði hann sig um set til Bandaríkjanna þar sem hann hitti fyrir djassgoðsagnir á borð við Charlie Parker, Ellu Fitzgerald og Frank Sinatra.

Hann hóf að spila á munnhörpu í frístundum sínum. Á meðan á síðari heimsstyrjöldinni stóð tók hann að hrífast af djasstónlistinni og eftir það var ekki aftur snúið.

Í framhaldinu fékk hann viðurnefnið Toots, sem var fengið frá Toots Mondello, bandarískum saxófónleikara, og Toots Camarata, trompetleikara og tónskáldi.

Toots kom til Íslands í febrúar árið 1984 og spilaði á tónleikum í Gamla bíói við góðar undirtektir.


 

Toots spilar á munnhörpuna af mikilli innlifun á tónleikum árið …
Toots spilar á munnhörpuna af mikilli innlifun á tónleikum árið 2005. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert