Fimm börn í íbúðinni

AFP

Að minnsta kosti fimm börn voru í íbúðinni í úthverfi Gautaborg en handsprengju var hent í gegnum glugga hennar í nótt. Átta ára gamall drengur sem var gestkomandi í íbúðinni lést í tilræðinu.

Meðal íbúa þar er maður sem var dæmdur fyrir aðild að skotárás á Vår Krog & Bar vorið 2015. Allt bendir til þess að um uppgjör glæpahópa sé að ræða en skipulögð glæpastarfsemi blómstrar í Biskopsgården-hverfinu.

Það var um þrjú í nótt sem lögreglu og sjúkraliði barst tilkynnt um að sprenging hefði heyrst af þriðju hæð fjölbýlishússins. Auk barnanna voru nokkrir fullorðnir í íbúðinni. Drengurinn lést af völdum sára sinna á sjúkrahúsi í nótt en hann var gestkomandi í íbúðinni.

Talsmaður lögreglunnar, Thomas Fuxborg, segir að þetta hefði getað farið mun verr en málið er rannsakað sem morð. Lögreglan hefur staðfest að einn þeirra sem var dæmdur fyrir skotárásina á barnum búi í íbúðinni og væntanlega sé um hefnd að ræða. Tveir létust og átta særðust í skotárásinni.

Frétt mbl.is: Lífstíðardómar í Svíþjóð.

Fuxborg staðfestir að rannsókn lögreglu í íbúðinni staðfesti að um handsprengju hafi verið að ræða. Einhver hafi staðið fyrir utan íbúðina og hent handsprengju gegnum glugga á stofunni.

Þetta er hryllingur, segir Fuxborg. Að utan er ómögulegt að sjá hverjir eru í íbúðinni og það að saklaust barn verði fórnarlamb slíkrar árásar er viðurstyggð.

Lögreglumenn hafa í nótt og morgun gengið um hverfið og bankað upp á hjá nágrönnum í þeirri von að fá frekari upplýsingar.

Frétt mbl.is: Barn lést í sprengingu í Gautaborg

Frétt Svd

Frétt SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert