Grunuð um morð á fjórum börnum

AFP

Rúmlega fertug japönsk kona er í haldi lögreglu grunuð um að hafa myrt fjögur börn sín. Lík barnanna fundust á heimili þeirra og hefur móðir þeirra játað að hafa myrt þau. Konan reyndi að fremja sjálfsvíg, að því er fram kemur í japönskum fjölmiðlum í dag.

Faðir barnanna fann þau látin á heimili sínu snemma í morgun en elsta barnið var tíu ára gamall drengur. Yngri börnin voru stúlkur, ein þriggja ára og tvær sex ára.

Konan, sem er 41 árs, var flutt á sjúkrahús en hún hafði reynt á skera sig á púls með eldhúshníf. Að sögn lögreglu var að minnsta kosti eitt barn með merki um að hafa verið kyrkt.

Mál af þessu tagi, það er morð og sjálfsvíg, eru ekki sjaldgæf í Japan. Í dag var tilkynnt um hvarf konu og tveggja sona hennar í Gunma, ekki langt frá Tókýó, en bifreið konunnar fannst við árbakka. Talið er að konan og synir hennar hafi kastað sér út í ána og að um morð-sjálfsvíg hafi verið að ræða. Í síðasta mánuði framdi kona sjálfsvíg í Chiba eftir að hafa stungið þrjú börn sín til bana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert