Hvetja landsmenn til að eiga varabirgðir

Thomas de Maiziere, innanríkisráðherra Þýskalands, sagði hópi skólabarna að Þjóðverjar …
Thomas de Maiziere, innanríkisráðherra Þýskalands, sagði hópi skólabarna að Þjóðverjar verði að vera tilbúnir að bregast við kæmi upp sú staða að vatnsból eða matarbirgðir yrðu eitruð. AFP

Stjórnvöld í Þýskalandi ráðleggja nú landsmönnum, í fyrsta skipti frá því á tímum kalda stríðsins, að koma sér upp varabirgðum af mat og vatni komi til  neyðarástands í landinu.

Nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar segja um hræðsluáróður að ræða, en þessar nýju heimavarnarhugmyndir eru á málaskrá þýska þingsins á miðvikudag.

Landsmönnum er ráðlagt að eiga varabirgðir af mat sem dugi í tíu daga og vatn til fimm daga, þar sem ekki er víst að öryggissveitir nái að sinna öllum strax ef til neyðarástands kemur.

Á vef þýska dagblaðsins Frankfurter Allgemeine segir að þessar hugmyndir séu útlistaðar í 69 síðna skýrslu þýska innanríkisráðuneytisins.

Í skýrslunni segir að verði Þýskaland fyrir hryðjuverkaárás sé ólíklegt að grípa þurfi til hefðbundinna aðgerða, en ekki sé þó hægt að útiloka slíkt og því sé nauðsynlegt að slík heimavarnaráætlun sé til.

Ekki leið á löngu frá því að fréttir bárust af skýrslunni þar til þýskir notendur samfélagsmiðla hófu að birta kaldhæðnisleg skilaboð á Twitter undir myllumerkinu „Hamsterkaeufe“ – sem útleggja má sem neyðarkaup, að sögn fréttavefs BBC.

Thomas de Maiziere, innanríkisráðherra Þýskalands, sagði hópi skólabarna að Þjóðverjar verði að vera tilbúnir að bregast við kæmi upp sú staða að vatnsból eða matarbirgðir yrðu eitruð, eða ef klippt yrði á olíu- eða gasleiðslur landsins.

Dietmar Bartsch, formaður þýska stjórnarandstöðuflokksins Die Linke, gagnrýndi áætlunina og sagði hana gerða til þess að koma fólki úr jafnvægi.

Konstantin von Notz, varaformaður Græningjaflokksins, sagði hins vegar skynsamlegt að uppfæra heimavarnaráætlun landsins þar sem hún hefði síðast verið uppfærð árið 1995.

Hann varaði þó við því að blanda slíku við mögulegar hernaðar- eða hryðjuverkaaðgerðir. „Ég get ekki séð neina atburðarás sem réttlætir að almenningur fari að hamstra varabirgðir,“ sagði von Notz.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert