Í fangelsi vegna tónlistarmyndbands

Malasíski rapparinn Namewee.
Malasíski rapparinn Namewee. AFP

Malasískur rappari hefur verið úrskurðaður í fjögurra daga gæsluvarðhald vegna tónlistarmyndbands við lagið Oh My God þar sem hann er sakaður um að hafa gert lítið úr íslamstrú. Ástæðan er sú að myndbandið var að hluta til tekið upp í mosku.

Rannsókn stendur yfir á því hvort rapparinn Namewee, sem heitir réttu nafni Wee Meng Chee, hafi smánað bænastað í því skyni að gera lítið úr trúarbrögðum. Namewee, sem er einnig kvikmyndaleikstjóri, á yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi, sekt, eða hvoru tveggja, verði hann fundinn sekur.

Orðið „Allah“ og hljómur bænakalls íslams er sagt hafa verið notað í hinu fjögurra mínútna myndbandi. Í því eru Namewee ásamt öðrum söngvurum klæddir í föt sem eiga að túlka mismunandi trúarbrögð og menningarheima inni í mosku, kirkju og í hofum. Rapparinn var handtekinn á alþjóðaflugvellinum í Kuala Lumpur seint í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert