Lögin takmarkist við líffræðilegan mun

AFP

Bandarískur dómstóll hefur fellt úr gildi alríkisviðmiðunarreglur sem beina því til skóla að heimila transfólki að velja hvaða salernisaðstöðu það notar. Reglurnar ná einnig til annarrar aðstöðu af sama toga.

Dómarinn Reed O'Connor úrskurðaði í hag Texas og tólf annarra ríkja sem hafa höfðað mál á hendur alríkisstjórninni vegna reglnanna, en þeim er ætlað að skapa öruggara umhverfi fyrir transfólk í opinbera skólakerfinu.

Viðmiðunarreglurnar voru gefnar út í maí og byggja á lögum gegn kynjamismunun. O'Connor komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að alríkisstjórninni hefði ekki verið heimilt að beita sér með þessum hætti og rangtúlkað lögin.

Sagði dómarinn að í raun væru reglurnar ekkert annað en löggjöf, þær gætu hvorki flokkast til túlkana né stefnuyfirlýsinga vegna þess að með þeim væru klárlega sett lagaleg viðmið. Þá takmarkaðist sú löggjöf sem fyrir væri við „líffræðilegan og líkamlegan mun milli karlkyns og kvenskyns nemenda við fæðingu þeirra.“

Úrskurðinum hefur verið fagnað af yfirvöldum í Texas en baráttusamtökin Human Rights Campaign segja niðurstöðuna gera transfólk berskjaldaðra gegn jaðarsetningu, mismunun og ofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert