Mæla með 6 teskeiðum í stað 19

Bandarísk ungmenni neyta mun meiri sykurs en æskilegt er.
Bandarísk ungmenni neyta mun meiri sykurs en æskilegt er.

Bandarísk börn neyta þrefalt meira magns viðbætts sykurs en ráðlagt er, samkvæmt American Heart Association (AHA). Samtökin hafa kallað eftir strangari viðmiðum vegna sykurneyslu ungmenna.

Samtökin mæla með því að ungabörn undir tveggja ára aldri neyti alls ekki viðbætts sykurs og að eldri börn neyti aðeins jafngildi 100 kaloría á dag. Í framkvæmd myndi þetta þýða að börn fengju hvorki kökur né ís fyrstu tvö ár lífsins og að ungmenni á aldrinum 2-18 ára neyttu færri en 6 teskeiða af viðbættum sykri á degi hverjum.

Sex teskeiðar jafngilda 25 grömmum af sykri.

Sá viðbætti sykur sem börn neyta í dag er gjarnan í formi sætra drykkja eða morgunverðakorns, samkvæmt samtökunum. Neyslan jafnast á við 19 teskeiðar af sykri daglega.

Viðmiðunarreglur AHA byggja á ráðleggingum sérfræðinga og ítarlegum samantektum á vísindalegum rannsóknum á áhrifum sykurs á  heilsu barna. Samtökin segja mikla sykurneyslu í barnæsku auka líkurnar á offitu og háþrýstingi, sem aftur eru áhættuþættir þegar kemur að hjartasjúkdómum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert