Obama heimsækir flóðasvæðin í Louisiana

Neyðarskýli fyrir fórnarlömb flóðanna í Baton Rouge í Louisiana. Um …
Neyðarskýli fyrir fórnarlömb flóðanna í Baton Rouge í Louisiana. Um 86.000 manns hafa óskað eftir neyðaraðstoð frá yfirvöldum vegna flóðanna. AFP

Barack Obama Bandaríkjaforseti heimsækir á morgun þau svæði sem urðu hvað verst úti í flóðunum í Louisiana í síðustu viku. Obama hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir að stytta ekki sumarleyfisdvöl sína í Martha‘s Vineyard til að sýna íbúum flóðasvæðanna stuðning.

Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikana, fór til Louisiana í síðustu viku og hefur hætt forsetann fyrir fjarveru sína. „Í alvöru, Obama ætti að koma sér af golfvellinum og hingað niður eftir,“ sagði Trump.

Josh Earnest, talsmaður Hvíta hússins, hafnaði því hins vegar alfarið að orð Trump hefðu haft áhrif á Obama. „Forsetinn hefur beint athygli sinni að björgunaraðgerðunum og íbúum Louisiana sem hafa upplifað tilveru sína fara á hvolf í þessum hræðilegu flóðum,“ sagði Earnest.

13 manns hafa farist í flóðunum og 86.000 hafa óskað eftir neyðaraðstöð alríkisyfirvalda vegna flóðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert