75 handteknir vegna barnaníðs

Höfuðstöðvar Europol.
Höfuðstöðvar Europol.

Lögregluyfirvöld í 28 Evrópuríkjum hafa handtekið 75 einstaklinga sem grunaðir eru um að hafa deilt kynferðislegum myndum af börnum á internetinu. Um er að ræða 207 mál, samkvæmt upplýsingum frá Europol.

Aðgerðinni Daylight var hrundið af stað í kjölfar ábendinga frá lögregluyfirvöldum í Sviss um umfangsmikið net glæpamanna sem voru viðriðnir kynferðislegt ofbeldi á börnum. Rannsókn málsins hefur tekið meira en ár og fól m.a. í sér 611 tilvik þar sem upplýsingapakkar voru sendir til yfirvalda í 26 aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Noregur og Sviss komu einnig að aðgerðinni.

Svokallaðir upplýsingapakkar innihalda nákvæmar upplýsingar um grunaða, t.d. IP-tölur. Talsmaður Europol sagði að í mörgum tilvikum hefðu grunuðu notast við „myrkranetið“ og Tor-dulkóðunarkerfið.

Talsmaðurinn sagði að barnaníðinganet á borð við það sem hér um ræðir væru sú uppspretta sem fólk með barnagirnd leitaði helst í.

Engin lönd voru nefnd í yfirlýsingu Europol en ítölsk yfirvöld greindu frá því í annarri yfirlýsingu að margir hinna handteknu hefðu ekki komið áður við sögu hjá lögreglu. Þeir hefðu verið „hafnir yfir grun“ og margir komnir yfir miðjan aldur.

Að sögn talsmanns Europol voru fórnarlömb glæpamannanna á ýmsum aldri en það væri áhyggjuefni að kynferðisofbeldi virtist í auknum mæli beinast gegn ungbörnum yngri en 18 mánaða.

Europol sagði frá því á síðasta ári að það hefði færst í aukana að glæpamenn sendu mönnum aðgang að beinni útsendingu af barnaníði í gegnum forrit á borð við Skype og innheimtu rafrænt gjald fyrir, t.d. bitcoin, sem erfitt er að rekja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert