Dóp veldur usla í Los Angeles

Eiturlyfið spice hefur kostað mörg mannslíf.
Eiturlyfið spice hefur kostað mörg mannslíf. AFP

Eiturlyf eru talin skýra veikindi meðal heimilislausra í einu hverfi Los Angeles en tugir hafa þurft að leita á bráðamóttökur undanfarna daga.

Um er að ræða eiturlyf sem ekki er ólöglegt hér á landi né heldur í Svíþjóð en þar hefur það kostað nokkur mannslíf. Lyfið nefnist spice en við fram­leiðslu á spice og öðrum skyld­um efn­um er oft verk­smiðju­fram­leidd­um efn­um sprautað yfir jurtir, reyk­elsi eða sam­bæri­lega hluti til þess að líkja eft­ir áhrif­um af THC (virka efn­inu í kanna­bis). Þetta dóp kom fyrst á markað í Banda­ríkj­un­um árið 2008 og geng­ur yf­ir­leitt und­ir heit­inu spice eða K2 þó svo að nöfn­in séu fjöl­mörg. Það var gjarnan markaðssett sem reyk­elsi og selt í litl­um lit­rík­um pakkn­ing­um og tekið fram að ekki skyldi inn­byrða það.

Spice eða K2 varð strax afar vin­sælt meðal banda­rískra mennta­skóla­nema og annarra ung­menna þar sem það var lög­legt og hægt að kaupa það í versl­un­um og á net­inu allt þar til í júlí 2012 er Barack Obama, for­seti Banda­ríkj­anna, skrifaði und­ir lög sem lögðu bann við sölu á gervikanna­bis­efn­um (synt­hetic canna­bin­oids).

Frétt mbl.is: Löglegt en banvænt

Átján manns úr Skid Row-hverfinu þurftu á aðstoð slökkviliðsmanna að halda í gær og voru 14 fluttir á sjúkrahús. Á föstudag þurfti að veita um 50 manns aðstoð og enduðu 38 þá á sjúkrahúsi.

Þrátt fyrir að það hafi ekki verið formlega staðfest með eiturefnarannsókn hver ástæðan er fyrir veikindunum er talið nánast fullvíst að spice sé ástæðan. 

Vegna þess að um tilbúið efni er að ræða er ekki vitað nákvæmlega hvert virka efnið er og styrkleikinn er misjafn, segir Marc Eckstein, framkvæmdastjóri lækninga hjá slökkviliðinu í Los Angeles.

Um fimm þúsund eru heimilislausir í Skid Row-hverfinu í Los Angeles og glíma margir þeirra við andleg veikindi og fíkn. Flestir þeirra sofa á götum úti enda neyðarskýli af skornum skammti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert