Ferðamönnum fækkar í Frakklandi

Frá París.
Frá París. AFP

Ferðamönnum hefur fækkað um sjö prósent í Frakklandi síðan í janúar. Ástæðurnar kunna að vera nokkrar að sögn utanríkisráðherra landsins, Jean-Marc Ayrault, m.a. hryðjuverkaógn, verkföll og slæmt veður.

„Komum ferðamanna hefur fækkað um sjö prósent síðan í ársbyrjun,“ sagði Ayrault en hann er einnig ferðamálaráðherra landsins. Sagði hann samdrátt í ferðamannaiðnaðinum ná til alls landsins en París hafi orðið verst úti.  

Frakkland er vinsælasti áfangastaður ferðamanna í heimi en árið 2015 sóttu tæplega 85 milljónir landið heim. Næst á eftir komu Bandaríkin með 77,5 milljónir ferðamanna. Hlutfall ferðaþjónustu af vergri landsframleiðslu Frakklands er um það bil níu prósent.

Jean-Marc Ayrault, utanríkis- og ferðamálaráðherra Frakklands.
Jean-Marc Ayrault, utanríkis- og ferðamálaráðherra Frakklands. AFP

„Hryðjuverkaárásirnar eru að hluta til ábyrgar fyrir þessari svekkjandi sveiflu. Óttinn við frekari árásir hefur áhrif á einhverja ferðamenn, sérstaklega þá ríkari eða frá Asíu,“ sagði Ayrault og bætti við að efnahagsörðugleikar í Rússlandi og Brasilíu hefðu einnig áhrif á fjöldann sem þaðan kæmi.

Sagði hann að flóðin úr Signu og verkföllin í fluggeiranum hefðu vissulega haft sitt að segja líka. Fjöldi gistinátta í París dróst saman um 11,4 prósent síðan í janúar og er áætlað tap vegna fækkunarinnar um einn milljarður evra. Japönskum túristum í landinu fækkaði um 46,2 prósent á Parísarsvæðinu, Rússum fækkaði um 35 prósent og Ítölum um 27 prósent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert