Sendu skotflaug á loft af kafbáti

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, á ferð ásamt herforingjum sínum. Talið …
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, á ferð ásamt herforingjum sínum. Talið er að yfirvöld í Norður-Kóreu vinni að þróun kjarnavopna, þrátt fyrir bann Sameinuðu þjóðanna. AFP

Norðurkóreski herinn náði í dag að senda skotflaug á loft af kafbáti að því er suðurkóreska Yonhap-fréttastofan sagði frá.

Í síðasta mánuði greindu yfirvöld í Suður-Kóreu frá því að tilraunir norðurkóreska hersins til að skjóta skotflaugum af kafbáti hefðu mistekist.

Talið er að yfirvöld í Norður-Kóreu vinni að þróun kjarnavopna, þrátt fyrir bann Sameinuðu þjóðanna við kjarnorkuvopnanotkun ríkisins.

Ekki er langt síðan yfirvöld í Pyongyang hótuðu að bregðast við sameiginlegri heræfingu Bandaríkjanna og Suður-Kóreu, sem þau líta á sem æfingu fyrir innrás í Norður-Kóreu.

Þá tilkynntu bandarísk og suðurkóresk stjórnvöld í síðasta mánuði að þau hygðust koma upp sameiginlegu eldflaugavarnarkerfi til að bregðast við hættu á árásum frá Norður-Kóreu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert