Skiljið vopnin eftir heima

Skammbyssa.
Skammbyssa. AFP

Kanadísk yfirvöld hafa sett á laggirnar herferð til að minna bandaríska ríkisborgara á að önnur lög gildi þar í landi varðandi vopnaburð. Fjölmargir Bandaríkjamenn fara til Kanada á veiðar og tekið er fram að það sé heimilt að vera með vopn í þeim tilgangi að veiða villidýr og verja sig fyrir þeim á afskekktum slóðum. Hins vegar sé bann við því að bera vopn í varnarskyni á almannafæri og til þess að verja heimili sín.

„Kanadísk lög eru ólík þeim bandarísku,“ segir í tilkynningu frá kanadísku landamæragæslunni.

Þar kemur fram að fjaðurhnífar, lásbogar, hnúajárn og fleiri tegundir vopna séu einnig bönnuð í Kanada.

Ekki er langt síðan tveir ferðamenn frá Texas voru stöðvaðir á landamærastöðinni í Saint Stephen, New Brunswick. Við leit í bifreið þeirra, en um eftirlaunaþega var að ræða, fundust tvær skammbyssur, haglabyssa og skotfæri. Þeim var gert að greiða sekt upp á 775 Bandaríkjadali og að yfirgefa landið. Á fyrstu sex mánuðum ársins hefur verið lagt hald á 413 byssur á landamærum Kanada. Um er að ræða vopn sem fundist hafa á smyglurum og byssuglöðum Bandaríkjamönnum. Er þetta aukning á milli ára en á sama tímabili í fyrra var lagt hald á 386 byssur á fyrri hluta ársins.

Skotfæri.
Skotfæri. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert