Skoða að taka upp herskyldu að nýju

Hamstraforsíðu Die Tageszeitung hefur verið dreift víða, en margir hafa …
Hamstraforsíðu Die Tageszeitung hefur verið dreift víða, en margir hafa tekið þeirri hugmynd þýskra yfirvalda, að íbúar eigi varabirgðir af mat og vatni, með kaldhæðni.

Vera kann að herskylda verði tekin upp að nýju í Þýskalandi til að gera her landsins kleift að takast á við mögulegar hamfarir í framtíðinni. Hlutverk almennra borgara í drögum að nýrri heimavarnaráætlun verður til umræðu í þýska þinginu á morgun.

Mikið hefur verið fjallað um málið eftir að drögunum af áætluninni var lekið í fjölmiðla nú fyrr í vikunni. Þýska fréttastofan DPA hefur greint frá því að komi upp hættuástand kunni almennir borgarar að vera skikkaðir til að stýra umferð, láta af hendi eldsneyti eða þá að veita hermönnum húsaskjól.

Þjóðverjar kippa sér yfirleitt lítið upp við það sem sumir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa kallað hræðsluáróður, en orðið „Wehrpflicht“ eða „herskylda“ birtist þó víða á samfélagsmiðlum í dag að sögn fréttavefjar BBC.

Myndir af hömstrum hafa einnig notið vaxandi vinsælda á samfélagsmiðlum í kjölfar umræðunnar um heimavarnaráætlunina, en margir hafa þar notað myllumerkið „Hamsterkaeufe“ með kaldhæðnislegri vísan í að íbúar séu hvattir til að hamstra varabirgðir.

Þýska dagblaðið Die Tageszeitung birti t.a.m. stóra mynd af hamstri á forsíðu sinni undir fyrirsögninni „Endalokin eru á næsta leiti“ sem hefur verið deilt víða.

Þýsk stjórnvöld hafa sagt náttúruhamfarir ólíklegar, en yfirvöld verði að vera undirbúin fyrir mögulega hryðjuverkaárás eða netárásir sem skaddi innviði ríkisins.

Herskylda var afnumin í Þýskalandi 2011, en ákvæði í stjórnarskrá landsins heimilar þó að hún sé tekin upp að nýju.

Á dögum kalda stríðsins gátu stjórnvöld í Þýskalandi meira en tvöfaldað herafla landsins með því að kalla út varalið sitt. Þeim sem ekki vildu gegna 9 mánaða herskyldu bauðst í þess stað að sinna 18 mánaða  borgaraþjónustu, t.a.m. á sjúkrahúsum. Á hápunkti kalda stríðsins var þó öllum karlmönnum skylt að sinna 18 mánaða herskyldu.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert