Stakk son sinn til bana vegna heimanáms

AFP

Japanskur faðir stakk tólf ára gamlan son sinn til bana um helgina eftir að þeir höfðu deilt um dugnað drengsins við að læra heima. Faðirinn, sem er 48 ára gamall, taldi drenginn ekki nægjanlega iðinn við heimanámið en fram undan eru inntökupróf í einkaskóla.

Hörð samkeppni ríkir um að komast í bestu skóla landsins í Japan. Aðgangur að slíkum skóla getur breytt framtíð ungmenna og þýtt að þeim séu allir vegir færir í atvinnulífinu síðar meir. 

Drengurinn, sem hét Ryota, var fluttur á sjúkrahús á sunnudag eftir hnífstungurnar en lést af völdum sára sinna, að sögn lögreglu. Faðirinn, Kengo Satake, hafði stungið drenginn í brjóstið með eldhúshníf. Faðirinn var handtekinn eftir að starfsfólk sjúkrahússins hafði samband við lögreglu og tilkynnti um atvikið. Satake segir að um óviljaverk hafi verið að ræða.

Ryota stefndi að því að taka inntökupróf í besta einkaskólann í Aichi og faðir hans hafði ítrekað skammað hann fyrir að vera ekki nægjanlega duglegur við heimanámið, að sögn fólks sem þekkir til fjölskyldunnar. Móðirin var í vinnu þegar atvikið átti sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert