Svalahopp ekki svalt

Ferðamenn á ströndinni á Mallorca.
Ferðamenn á ströndinni á Mallorca. AFP

Svo vinsælt er það hjá ungum og drukknum ferðamönnum á Baleareyjum í Miðjarðarhafi að stökkva af svölum út í sundlaug að læknar á sjúkrahúsi á Mallorca hafa gert rannsókn á athæfinu. Ekki liggur fyrir nákvæmlega hversu margir hafa látist við þessa iðju en spænskir fjölmiðlar hafa sagt frá öðrum tugi dauðsfalla.

„Þetta er landlægt. Þetta virðist vera nokkurs konar innvígsluathöfn fyrir suma ferðamenn sem eiga foreldra sem komu hingað þegar þeir voru ungir,“ segir Xavier González, yfirlæknir skurðdeildar Son Espases-sjúkrahússins í Palma.

Könnun sjúkrahússins náði til áranna 2010 til 2015 og aðeins þeirra sem hlutu meðferð á spítala en ekki til þeirra sem létust við að stökkva af svölum eða að klifra á milli þeirra. Samtals annaðist sjúkrahúsið 46 manns á tímabilinu. Nærri því 60% þeirra voru Bretar en þar á eftir komu Þjóðverjar og Spánverjar. Aðeins ein kona slasaði sig með þessum hætti en þeir slösuðu voru yfirleitt karlar, 24 ára gamlir að meðaltali.

Sumir lamast fyrir neðan mitti

Fólkið féll að meðaltali úr um átta metra hæð. Áfengi kom við sögu í nærri því öllum slysunum og í tæplega 40% var fólkið undir áhrifum fíkniefna. Æðið hefur kostað um eina og hálfa milljón evra í spítalagjöld, þar sem sjúklingarnir þurfa stundum að vera lengi á gjörgæslu. Sumir lamast jafnvel fyrir neðan mitti, að sögn González.

Yfirvöld á Baleareyjum hafa gripið til ýmissa ráðstafana til að fyrirbyggja slys af þessu tagi. Viðvaranir hafa verið hengdar upp og fólk sem er gripið við að hoppa af svölum er sektað. Þá segir González að hótelstarfsfólk setji hópa ungs fólks ekki lengur á efri hæðir hótela heldur á jarðhæð.

Bresk stjórnvöld hafa sömuleiðis reynt að stemma stigu við æðinu. Árið 2012 gaf breska utanríkisráðuneytið út bækling sem bar titilinn „Áfengi og svalir fara ekki vel saman“. Þar var sögð sagan af Jake Evans, sem var drukkinn þegar hann féll af svölum á sjöundu hæð íbúðar í Magaluf árið 2011. Hann rakst á allar svalirnar fyrir neðan á leiðinni niður.

„Ég braut höfuðkúpuna, ég braut framtennurnar sem gengu í gegnum efri vörina, hægri úlnliðurinn mölbrotnaði og ég braut alla fingurna á hægri hendi. Slysið breytti lífi mínu. Ég á í sífelldum vandræðum með bakið á mér og hægri úlnliðinn og læknar hafa sagt mér að ég muni líklega alltaf eiga í þeim,“ segir Evans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert