„Þeir neyddu okkur í hjónaband“

Tuol Sleng helfararsafnið.
Tuol Sleng helfararsafnið. AFP

Tugir þúsunda para voru þvinguð í hjónaband á valdatíma Rauðu kmeranna í Kambódíu en fjöldahjónavígslur voru liður í áætlun samtakanna til þess að fjölda landsmönnum. Á sama tíma er talið að tvær milljónir hafi týnt lífi á valdatíð þeirra á árunum 1975-1979, sem svarar til fjórðungs kambódísku þjóðarinnar.

Við réttarhöld í Kambódíu í dag við dómstól sem stofnaður var með stuðningi Sameinuðu þjóðanna til að sækja til saka fyrrverandi forystumenn Rauðu kmeranna sögðu fórnarlömb þeirra sögu sína.

Ein kona lýsti því hvernig henni var nauðgað af herforingja Rauðu kmeranna eftir að hafa verið hótað aftöku þegar hún neitaði að fullkomna hjónaband sem hún var neydd í. 

Réttarhald stendur nú yfir í máli gegn Nuon Chea, sem er einnig þekktur sem „Bróðir númer tvö“, og Khieu Samphan, fyrrverandi forseta ógnarstjórnar kmeranna, en þeir hafa verið ákærðir fyrir þjóðarmorð, þvinguð hjónabönd og nauðganir.

Nuon Chea, 90 ára, og Khieu Samphan, 85 ára, voru báðir fundnir sekir um glæpi gegn mannkyninu í ágúst 2014. Réttarhöldin nú miða að rannsókn á því hvort þeir hafi tekið þátt í fjöldamorðum á minnihlutahópum, hópnauðgunum og þvinguð hjónabönd.

Mannréttindasamtök og sagnfræðingar segja réttarhöldin nú mikilvægt skref fyrir fórnarlömb kynferðisglæpa Rauðu kmeranna.

Konan sem bar vitni í dag lýsti því hvernig hún var neydd í hjónaband með vígamanni sem var tuttugu árum eldri en hún í gleðisnauðu fjöldabrúðkaupi í ársbyrjun 1978. Þeir sem neituðu að taka þátt hurfu einfaldlega eða voru drepnir. Þar á meðal var frækna hennar. „Þeir neyddu okkur í hjónaband,“ sagði hún við réttarhöldin í morgun.

Hún lýsti því hvernig herforingi hefði nauðgað henni og hótað að skjóta hana ef hún fullkomnaði ekki hjónabandið með honum. Hún fæddi honum dóttur. Þau skildu að skiptum í umróti borgarastyrjaldarinnar í Kambódíu en síðar fór hún til hans aftur vegna þrýstings frá samfélaginu. „Ég sagði aldrei sögu mína en það er orðið tímabært að tjá mig,“ sagði hún í dómsalnum í morgun.

Transkona, sem fæddist sem karl, lýsti því hvernig hún var þvinguð til þess að giftast konu. Eftir athöfnina njósnuðu Rauðu kmerarnir um hjónalíf fólksins sem var þvingað í hjónaband. „Við neyddumst til þess að hafa kynmök til þess að lifa af,“ segir konan sem er 75 ára í dag. Kona hennar varð þunguð í kjölfarið og þær eignuðust barn saman.

Youk Chhang, framkvæmdastjóri skjalasafns Kambódíu, segir nauðsynlegt að afla frekari upplýsinga um hópnauðganir og þvinguð hjónabönd á valdatíma Rauðu kmeranna.

Nauðganir áttu sér stað í þessum þvinguðu hjónaböndum og það verður að rannsaka hversu algengar þær voru. En um leið má ekki gleyma því hversu viðkvæmt viðfangsefnið er.

Hverjir voru Rauðu kmerarnir? 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert