Um 41.000 flóttamenn í Grikklandi

Flóttamenn í öryggiseftirliti í Aþenu.
Flóttamenn í öryggiseftirliti í Aþenu. AFP

Innflytjendaráðherra Grikklands segir að nú séu um 41.000 flóttamenn og hælisleitendur í landinu, flestir þeirra Sýrlendingar sem eiga rétt á að vera fluttir til annarra Evrópusambandsríkja. Um 11.000 manns til viðbótar eru á grísku eyjunum eftir að hafa komið þangað frá Tyrklandi.

Alls skráðu grísk stjórnvöld 54.000 flóttamenn og farandfólk í landinu frá júní til loka júlí. Fleiri en 41.000 á meginlandinu hafa lýst áhuga á hæli eða hafa lagt inn formlega umsókn til viðbótar við þau 11.000 sem eru á eyjunum. Önnur tvö þúsund hafa samþykkt að snúa aftur heim.

Áður en nokkur austurevrópsk og Balkanríki lokuðu landamærum sínum fyrir flóttamönnum og samningur var gerður á milli Evrópusambandsins og Tyrklands um að stemma stigu við flæði flóttamanna inn í álfuna fór um milljón þeirra í gegnum Grikkland í fyrra. Flestir þeirra voru Sýrlendingar á flótta undan borgarastríðinu í heimalandinu.

Yiannis Mouzalas innflytjendaráðherra viðurkenndi að um það bil 4.000 manns til viðbótar reyndu að forðast frekari skráningu í Grikklandi og freistuðu þess að komast yfir landamæri Grikklands með aðstoð smyglara. Harðneitaði ráðherrann hins vegar orðrómum um að grísk stjórnvöld leyfðu hundruðum flóttamanna að laumast yfir landamærin að Makedóníu og Búlgaríu.

„Það er lygi. Ef 700 manns færu á hverjum degi væru engir flóttamenn eftir,“ sagði ráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert