Óvænt bandarísk „innrás“

Fljótandi Bandaríkjamenn í hinum árlega viðburði.
Fljótandi Bandaríkjamenn í hinum árlega viðburði. Ljósmynd/Port Huron Float Down

Um 1.500 Bandaríkjamenn tóku óvænt stefnuna inn fyrir kanadíska landhelgi þegar þeir réðu ekkert við báta sína og fleka í miklu roki á árlegum viðburði sem nefnist Port Huron Float Down. Þessi óvænta innrás á sunnudag varð þó ekki kveikjan að milliríkjadeilu heldur fengu allir fylgd aftur yfir landamærin.

Viðburðurinn fer fram á ánni St. Clair sem aðskilur Michigan-ríki Bandaríkjanna og Kanada, en þá lætur fólk sig fljóta, m.a. á flekum eða litlum plastbátum, eftir ánni. Ferðin hefst við Lighthouse-ströndina við Port Huron í Michigan og er áfangastaðurinn Chrysler-ströndin í Marysville. Kári var hins vegar í jötunmóð og blés 1.500 Bandaríkjamönnum yfir til nágranna sinna í norðri. 

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að það hafi tekið margar klukkustundir að flytja fólkið aftur til Bandaríkjanna, að því er haft eftir lögreglunni í Sarnia í Ontario-fylki. Engan sakaði og enginn var hnepptur í varðhald vegna málsins. 

Lögreglan segir að margir hafi verið vanbúnir, t.d. ekki í neinum björgunarvestum. 

„Þetta var algjör martröð, en við komust í gegnum þetta,“ er haft eftir Scott Clarke hjá lögreglunni í Sarniu. „Það var löng bið og langar raðir. Fólkið var blautt og því var kalt, en allir komust á endanum heim.“

Það tók um sex klukkustundir að koma fólkinu að landamærum Bandaríkjanna, en fólkið var flutt í 19 rútum. Þá fylgdi töluvert drasl með bandaríska „innrásarliðinu“, en bjórdósir, kælibox og borð voru á meðal þeirra muna sem skolaði á kanadísku strandlengjuna.

Fram kemur á vef BBC, að bandaríska strandgæslan hafi gert tilraun til að starfa með skipuleggjendum viðburðarins en það hefur ekki gengið upp þar sem enginn hefur viljað gerast ábyrgðarmaður hátíðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert