Vill ekki „stórt múslimskt samfélag“

Bohuslav Sobotka er afar ósammála Angelu Merkel hvað varðar lausn …
Bohuslav Sobotka er afar ósammála Angelu Merkel hvað varðar lausn flóttamannavandans og segir aðildarríki ESB verða að vera sjálfráð hvað varðar fjölda flóttamanna sem þau taka á móti. AFP

Bohuslav Sobotka, forsætisráðherra Tékklands, sagði í dag að honum hugnaðist ekki „stórt múslimskt samfélag“ og að aðildarríki Evrópusambandsins ættu að geta valið hversu mörgum flóttamönnum þau tækju á móti.

„Við búum ekki við stórt múslimskt samfélag hér,“ sagði Sobotka um þá 10-20 þúsund múslima sem búa í Tékklandi en íbúafjöldi landsins nemur 10,5 milljónum.

„Og í fullri hreinskilni viljum við ekki að stórt múslimskt samfélag myndist hér vegna þeirra vandamála sem við erum að horfa upp á,“ sagði forsætisráðherrann í viðtali við dagblaðið Pravo.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, er væntanleg til Prag á fimmtudag en Sobotka sagði þau  hafa ólíkar skoðanir á því hvernig leysa bæri flóttamannavandann. Merkel hefur hvatt önnur ríki til að taka á móti fleira flóttafólki en stjórnvöld í Tékklandi eru mjög á móti hinu umdeilda kvótakerfi sem smíðað var til að dreifa flóttamönnum niður á ríki ESB.

Sobotka sagðist frá upphafi hafa verið sannfærður um það að aðildarríkin þyrftu að vera sjálfráð um það hversu mörgum flóttamönnum þau tækju á móti. „Þegar allt kemur til alls eru það ríkisstjórnir ríkjanna sem þurfa að tryggja öryggi fólks.“

Ráðherrann varaði hins vegar við því að flóttafólkið væri stimplað sem hryðjuverkamenn.

„Það er ekki hægt að setja samasemmerki milli flóttamanna og hryðjuverkamanna. En á sama tíma er ekki hægt að viðhafa sömu nálgun og Þýskaland á síðasta ári, það er að heimila aðflutning gríðarlegs fjölda fólks án nokkurrar yfirsýnar.“

Á meðan heimsókn Merkel stendur mun hún eiga fund með Milos Zeman, forseta Tékklands, sem sagði fyrr í þessum mánuði að hann væri á móti því að taka á móti nokkrum flóttamanni yfir höfuð. Hann hefur kallað stefnu Merkel í innflytjendamálum „fáránlega“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert