38 látnir og 150 saknað

Eyðileggingin er gríðarleg.
Eyðileggingin er gríðarleg. AFP

Ítölsk yfirvöld segja að 38 séu látnir og fjöldi slasaður en þetta eru fyrstu opinberu tölurnar sem stjórnvöld birta um fjölda látinna eftir harðan jarðskjálfta í nótt. 150 er enn saknað en leitað er í húsarústum þorpa og bæja.

 Upp­tök skjálft­ans, sem mæld­ist 6,2 stig, eru 76 km suðaust­ur af borg­inni Perugia á um 10 km dýpi. Jarðskjálft­inn reið yfir klukk­an 3:36 að staðar­tíma (1:36 að ís­lensk­um tíma). Fleiri skjálft­ar fylgdu í kjöl­farið, sá harðasti 5,4 stig. Jarðskjálft­inn fannst víða, meðal ann­ars skulfu bygg­ing­ar í Róm, sem er í 150 km fjar­lægð frá upp­tök­un­um, í 20 sek­únd­ur.

Yfirmaður almannavarna Ítalíu, Immacolata Postiglione, óttast að tala látinna eigi eftir að hækka. „Það eru enn svo margir fastir undir húsarústum, það er er svo margra saknað,“ segir Postiglione.

Frá bænum Amatrice.
Frá bænum Amatrice. AFP

Margir þeirra sem létust voru í bænum Pescara del Tronto en stór hluti bæjarins jafnaðist við jörðu. Líklega munu fleiri finnast látnir undir rústunum en björgunarstarf er enn í fullum gangi.

Stór hluti bæjarins Amatrice er rústir einar og svipaða sögu er að segja af Accumoli.

Skjálftinn fannst víða á Ítalíu en verst urðu úti héruðin Umbria, Lazio og Le Marche. Skjálftinn fannst allt frá Bologna í norðri til Napólí í suðri. Um 80 eftirskjálftar hafa mælst síðan í nótt.

Frans páfi segir að fréttir af afdrifum íbúa á skjálftasvæðinu séu hræðilegar. „Að heyra bæjarstjórann í Amatrice segja að þorp hans sé ekki lengur til, vitandi að það eru börn meðal fórnarlambanna er hræðilegt,“ sagði páfi þegar hann ávarpaði gesti á Péturstorginu í morgun.

Eyðileggingin er mest í Pescara del Tronto, smáþorpi sem tilheyrir bænum Arquata í Marche-héraði. Björgunarmenn segja að þorpið hafi verið jafnað við jörðu í bókstaflegri merkingu. Aleandro Petrucci, bæjarstjóri Arquata, segir að eyðileggingin sér alger í Pescara. Vitað er að fjögurra manna fjölskylda, þar á meðal tvö lítil börn, fórust auk tveggja annarra í fjölbýlishúsi í Accumoli. Stefano Petrucci, bæjarstjóri í Accumoli, segir að harmleikur blasi við bænum. Fólk sé fast undir rústum húsa og ástandið sé skelfilegt.

Fjölmargir létust í bænum Amatrice en bærinn er vinsæll áfangastaður ferðamanna og vitað er að margir voru í bænum þegar skjálftinn reið yfir bæinn. 

Kort af upptökum skjálftans í nótt.
Kort af upptökum skjálftans í nótt. AFP
Yfirlitsmynd af Amatrice tekin af björgunarmanni.
Yfirlitsmynd af Amatrice tekin af björgunarmanni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert