Lést við að bjarga dóttur sinni úr klóm tígrisdýrs

Konan sem lést reyndi að bjarga dóttur sinni úr klóm …
Konan sem lést reyndi að bjarga dóttur sinni úr klóm tígrisdýrs. AFP

Rannsókn yfirvalda á atviki sem kom upp í dýra- og náttúrulífsgarði í Peking í Kína þar sem tígrisdýr varð konu á sextugsaldri að bana hefur leitt í ljós að garðurinn er ekki ábyrgur fyrir því sem skeði heldur hafi ferðamennirnir sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að fara út úr bílnum á svæði þar sem Síberíu-tígrisdýr ganga laus.

AFP-fréttaveitan greinir frá málinu og kemur fram í fréttinni að fjögurra manna fjölskylda hafi verið í bifreiðinni; hjón með tveggja ára barn auk móður eiginkonunnar. Konan sem er á fertugsaldri steig út úr bílnum og stóð fyrir framan bílstjórahurð bifreiðarinnar þegar tígrisdýr læddist upp að henni, réðst á hana og dró með sér frá bílnum.

Við það hljóp eiginmaður konunnar úr bílnum sem og 57 ára móðirin. Sú síðarnefnda reyndi að lemja tígrisdýrið en við það réðust tvö dýr til viðbótar á hana og rifu á hol. Hún lést vegna árásarinnar en konan sem steig úr bílnum slasaðist í árásinni. Eiginmaðurinn slapp án meiðsla sem og tveggja ára dóttirin sem var í bílnum allan tímann.

Rannsókn yfirvalda á atvikinu leiddi í ljós að ferðamennirnir hefðu með athæfi sínu virt að vettugi reglur garðsins og viðvörunarskilti, en þar að auki höfðu þau verið upplýst um að halda kyrru fyrir í bifreið sinni munnlega og fengið afhentan kynningarbækling þar sem brýnt var fyrir fólki að stíga ekki út úr bílum sínum.

Þó komst rannsóknarnefndin að þeirri niðurstöðu að garðinum bæri að finna betri leiðir til að brýna fyrir gestum öryggisatriðin auk þess sem þjálfa þurfi starfsmenn garðsins betur þannig að þeir geti brugðist hraðar og betur við þegar upp koma atvik sem þetta. Það tók starfsmennina 15 mínútur að smala tígrisdýrunum í búr áður en viðbragðsaðilar gátu komið konunum til hjálpar.

Áður hefur komið upp atvik í garðinum þar sem tígrisdýr verða mannfólki að bana en það gerðist árið 2014 þegar tígrisdýr tættu í sig öryggisvörð í garðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert