Fannst mánuði eftir að ferðafélaginn lést

Routeburn er vinsæl gönguleið á Nýja-Sjálandi.
Routeburn er vinsæl gönguleið á Nýja-Sjálandi. www.backpack-newzealand.com

Tékknesk kona fannst í dag í afskekktum fjallakofa á Nýja-Sjálandi. Konan hafði verið á ferð með ferðafélaga sínum sem lést er hann sem hrapaði niður bratta hlíð og beið konan í mánuð eftir að vera bjargað.

Leitarflokkur fann konuna eftir að áhyggjur vöknuðu af að ekkert hefði sést til hennar eða ferðafélaga hennar frá því að þau lögðu af stað í Routeburn-gönguleiðina, sem er 32 km slóði í suðvesturhluta landsins.

Lögregluþyrla var látin fljúga yfir gönguleiðinni og fannst konan þá, að sögn lögregluvarðstjórans Olaf Jensen, í skála þjóðgarðsvarðar.

Nafn konunnar hefur ekki verið gefið upp, en hún sagði þau hafa haldið af stað í ferð sína 24. júlí og að ferðafélagi hennar hafi hrapað niður bratta hlíð fjórum dögum síðar.

Hún náði að feta sig niður til hans, en hann lést skömmu síðar og hélt hún þá að skálanum þar sem hún hefur hafst við frá því snemma í ágúst.

„Þetta er mjög óvenjulegt mál. Það er óvenjulegt að einhver týnist á hálendi Nýja-Sjálands í þetta langan tíma án þess að tilkynnt sé um hvarfið,“ sagði Jensen við fréttamenn.

„Ég skil að þið hafið margar spurningar, en þar til við getum rakið nákvæmlega hvað gerðist þá getum við ekki sagt neitt fleira.“

Konan var flutt á sjúkrahús til skoðunar og gerði lögregla ráð fyrir að ræða frekar við hana á morgun.

Þúsundir ferðamanna ganga Routeburn-gönguleiðina ár hvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert