Heilu hverfin þurrkuðust út

AFP

Vitað er um að 18 eru látnir eftir harðan jarðskjálfta á Ítalíu í nótt. Upp­tök skjálft­ans, sem mæld­ist 6,2 stig, eru 76 km suðaust­ur af borg­inni Perugia á um 10 km dýpi. Jarðskjálft­inn reið yfir klukk­an 3:36 að staðar­tíma (1:36 að ís­lensk­um tíma). Fleiri skjálft­ar fylgdu í kjöl­farið, sá harðasti 5,4 stig. Jarðskjálft­inn fannst víða, meðal ann­ars skulfu bygg­ing­ar í Róm, sem er í 150 km fjar­lægð frá upp­tök­un­um, í 20 sek­únd­ur.

AFP

Allir þeir sem vitað er að létust í skjálftanum voru staddir í þremur bæjum í fjalllendi Lazio- og Marche-héraðs, Amatrice, Accumoli og Pescara del Tronto.

Að minnsta kosti tíu létust í Pescara, sem er smáþorp sem er hluti af bæjum Arquata del Tronto, samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum Ítalíu. Sex lík hafa fundist í rústum húsa í Amatrice, að sögn héraðsstjóra Lazio og tveir hafa fundist látnir í Accumoli, að sögn bæjarstjórans þar.

„Helm­ing­ur bæj­ar­ins er horf­inn,“ sagði Sergi­o P­irozzi, bæj­ar­stjór­inn í Am­at­rice, bæ uppi í fjöll­un­um í Lazio-héraði, en bær­inn er full­ur af ferðamönn­um allt sum­arið. Hann seg­ir að ekki sé hægt að kom­ast til bæj­ar­ins, meðal ann­ars kom­ast björg­un­ar­sveit­ir ekki þangað þar sem brú hef­ur hrunið á öðrum veg­in­um til bæj­ar­ins og hinn er lokaður vegna þess að jörðin hef­ur gliðnað og sprung­ur mynd­ast við skjálft­ann í nótt. Bær­inn Am­at­rice er þekkt­ur fyr­ir gríðarlega feg­urð og sækja Róm­ar­bú­ar mjög í að dvelja þar í versta sum­ar­hit­an­um.

Þetta er öflugasti jarðskjálftinn sem hefur riðið yfir Ítalíu frá árinu 2009 en þá létust um 300 manns í borginni Aquila og nágrenni, skammt frá skjálftasvæðinu nú.

Forsætisráðherra Ítalíu Matteo Renzi, hefur hætt við ferð til Frakklands þar sem hann átti að hitta leiðtoga sósíalista í Evrópu að máli. 

Kort af upptökum skjálftans í nótt.
Kort af upptökum skjálftans í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert