Neyddu konu úr búrkíní

Tilkynning um búrkíníbannið á strönd í Nice.
Tilkynning um búrkíníbannið á strönd í Nice. AFP

Myndir sem birst hafa í Frakklandi sýna lögreglumenn hafa afskipti af konu í búrkíní á strönd í Nice og virðast þeir láta konuna afklæðast að hluta. Önnur kona var sektuð fyrir sömu sakir í Cannes og eru aðrir strandgestir sagðir hafa klappað fyrir lögreglunni og hrópað á konuna að fara „heim“.

Fimmtán franskir bæir hafa nú bannað svonefnd búrkíni, strandklæðnað sem sumar múslimakonur kjósa að klæðast sem hylur bæði líkama og höfuð. Ástæðan fyrir banninu er áhyggjur yfirvalda trúarlegum klæðnaði í kjölfar hryðjuverkaárása í Frakklandi undanfarin misseri.

Konan á myndunum sem voru teknar á ströndinni við Promenade des Anglais þar sem 86 létust í hryðjuverkaárás á Bastilludaginn sýnir hana klædda í ljósbláan ermasíðan kyrtil þegar fjórir vopnaðir lögreglumenn nálgast hana. Eftir að þeir byrja að tala við hana fer konan úr kyrtlinum og einn lögreglumannanna virðist pára eitthvað niður eða skrifa sekt, að því er segir í frétt The Guardian.

AFP-fréttaveitan sagði frá öðru atviki sem átti sér stað í Cannes í gær þar sem tveggja barna móðir var sektuð fyrir að klæðast sokkabuxum, kyrtli og höfuðklút á ströndinni. Í sektinni stóð að hún væri ekki klædd í föt „sem virða gott siðferði og veraldarhyggju“.

Frétt mbl.is: Frönsk stjórnvöld verja búrkíníbannið

Kona sem varð vitni að því þegar konan var sektuð segir að fólk hafi hrópað „Farðu heim“ og sumir hafi klappað fyrir lögreglunni.

„Dóttir hennar var grátandi,“ segir vitnið.

Búrkíníbannið kemur til kasta æðsta stjórnsýsludómstóls Frakklands á morgun en mannréttindasamtök hafa kært það. Neðra dómstig í Nice hefur áður staðfest slíkt bann sem komið var á í bænum Villaneuve-Loubet. Það var fyrsta búrkíníbannið í Frakklandi.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert