Skrá ekki ungbarnadauða

Hvítvoðungur í Suður-Súdan. Hjálparsamtök hafa áhyggjur af ungbarnadauða í ríkjum …
Hvítvoðungur í Suður-Súdan. Hjálparsamtök hafa áhyggjur af ungbarnadauða í ríkjum sunnan Sahara. AFP

Milljónir barna fæðast andavana eða deyja fyrsta mánuðinn eftir fæðingu í heiminum á hverju ári og 330.000 konur deyja af barnsförum samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Skráningu dauðsfallanna er hins vegar verulega áfátt í mörgum fátækjum ríkjum og er barnadauði því algengri en opinber gögn segja til um.

Sagt er frá skýrslu stofnunarinnar í Heimsljósi, veftímariti utanríkisráðuneytisins um þróunarmál, en þar kemur fram að fyrsti dagurinn í lífi barns sé sá hættulegasti bæði fyrir barn og móður.

Stofnunin leggur ekki mat á það hversu mikið vantalið er í þessum efnum miðað við uppgefnar tölur en samkvæmt tölum hennar deyja á hverju ári 2,7 milljónir barna fyrsta mánuðinn eftir fæðingu og 2,6 milljónir fæðast andvana.

Samkvæmt fréttinni eru því sem næst öll andvana fædd börn óskráð og hvorki eru gefin út fæðingar- né dánarvottorð fyrir helming þeirra kornabarna sem deyr á fyrstu vikum ævinnar. Þar sem dauðsföllin eru ekki skráð, tilkynnt eða rannsökuð getur viðkomandi ríki ekki gripið til nauðsynlegra aðgerða til að forða öðrum börnum og mæðrum frá dauða.

Að mati stofnunarinnar er nákvæm skráning og greining forsenda úrbóta á þessu sviði því unnt væri að bjarga flestum börnum sem fæðast andvana eða deyja á fyrstu dögum eftir fæðingu með betri heilbrigðisþjónustu á meðgöngu og við fæðingu.

Helmingur barna sem deyr fyrir fimm ára aldur eru nýburar

Rúmlega helmingur allra barna fær ekki brjóstagjöf fyrsta klukkutímann eftir fæðingu. Það er talið auka líkurnar á sjúkdómum og dauða, að mati fulltrúa barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) sem segja áhyggjurnar fyrst og fremst beinast að þjóðum sunnan Sahara í Afríku. Börn sem fá ekki brjóstagjöf fyrsta klukkutímann eftir fæðingu fari á mis við mikilvæg næringarefni, mótefni og snertingu við móður. Allir þessir þættir stuðli að vernd fyrir nýfædda barnið.

Með því að fresta brjóstagjöf um tvær til 23 klukkustundir eftir fæðingu aukist líkurnar á því að barnið deyi á fyrsta mánuðinum um 40% og með því að fresta brjóstagjöf um sólarhring eða meira aukast líkurnar á dauða barnsins um 80%. Helmingur allra barna sem deyr innan við fimm ára aldur eru nýburar.

UNICEF telur að 77 milljónir barna víðs vegar um heiminn fái ekki brjóstagjöf fyrsta klukkutímann eftir fæðingu af þeim 130 milljónum barna sem fæðast ár hvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert