Stórsókn á Ríki íslams

AFP

Tyrkneski herinn hefur hafið stórsókn á aðsetur vígamanna Ríkis íslams í Sýrlandi. Tyrkir njóta stuðnings frá alþjóðlegu herliði, bæði flug- og landher Tyrkja tekur þátt í árásunum.

Um er að ræða viðamestu aðgerðir Tyrkja í Sýrlandi frá því stríðið braust þar út fyrir rúmum fimm árum. Markmið þeirra er að útrýma vígamönnum í bænum Jarabulus, sem liggur skammt frá tyrkneska bænum Karakamis á landamærum Tyrklands og Sýrlands. 

Aðgerðir Tyrkja hófust klukkan 4 í nótt að staðartíma, um eitt í nótt að íslenskum tíma, og hefur sprengjum rignt yfir skotmörk í Jarabulus og nágrenni.

Mikil spenna er á landamærunum  eftir að ungur sjálfsvígssprengjumaður sprengdi sig í loft upp í brúðkaupsveislu í Tyrklandi um helgina. Hefur utanríkisráðherra Tyrkja meðal annars sagst vilja „hreinsa til við landamærin“ að Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert