Tyrkneskir skriðdrekar taka þátt í áhlaupi í Sýrlandi

Reykur liðast til lofts eftir loftárásir tyrkneska hersins á sýrlenska …
Reykur liðast til lofts eftir loftárásir tyrkneska hersins á sýrlenska landamærabæinn Jarablus. AFP

Sveitir sýrlenskra uppreisnarmanna tilkynntu í dag að þær hafi náð yfirráðum í landamærabænum Jarablus með aðstoð tyrkneska hersins, en bærinn var áður á valdi hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams.

Áhlaupið hófst í dögun þegar tyrkneskar herflugvélar og skriðdrekar fóru yfir landamæri Sýrlands ásamt sérsveitarmönnum.

Fréttavefur BBC hefur eftir uppreisnarmönnum að flestir vígamenn Ríkis íslams hafi hörfað fljótlega eftir að áhlaupið hófst.

Stjórnvöld í Tyrklandi segja aðgerðir tyrkneska hersins beinast gegn bæði Ríki íslams og uppreisnarsveitum Kúrda í Sýrlandi sem hafa reynt að ná Jarablus á sitt vald.

Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, sem nú er í opinberri heimsókn í Tyrklandi, varaði uppreisnarmennina, sem tilheyra lýðræðissveitum Sýrlands, við því að sveitirnar yrðu að hörfa aftur austur yfir ána Efrat ef þær vildu halda áfram að njóta stuðnings Bandaríkjamanna.

„Við höfum tekið það skýrt fram […] að þeir verða að fara aftur yfir ánna,“ hefur fréttavefur BBC eftir Biden.  „Þeir geta ekki og munu undir engum kringumstæðum njóta stuðnings  Bandaríkjanna ef þeir halda ekki það loforð.“

Biden  hefur í heimsókn sinni reynt að bæta tengsl Tyrklands og Bandaríkjanna, sem hafa orðið stirð eftir misheppnaða valdaránstilraun í Tyrklandi í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert