Vígamenn ráðast á háskóla í Kabúl

Afganskir lögreglumenn skammt frá bandaríska sendiráðinu í Kabúl. Sprengjuárás var …
Afganskir lögreglumenn skammt frá bandaríska sendiráðinu í Kabúl. Sprengjuárás var gerð skammt frá sendiráðinu fyrr í mánuðinum. AFP

Vígamenn hafa gert árás á Bandaríska háskólann í Afganistan sem er staðsettur í höfuðborginni Kabúl. Starfslið skólans og nemendur eru fastir inni í skólastofum.

„Við erum föst inni í skólastofunni með öðrum nemendum. Ég heyrði sprengingar og byssuskot skammt frá,“ sagði einn nemendanna við AFP-fréttastofuna í gegnum síma.

Enginn hefur lýst árásinni á hendur sér. 

Tveimur prófessorum við háskólann, Bandaríkjamanni og Ástrala, var rænt í Kabúl fyrr í þessum mánuði.

Rúmlega 1.700 manns stunda nám við háskólann, sem var stofnaður árið 2006.

Í síðasta mánuði létust 80 manns og 230 særðust í árás sem var gerð á kröfugöngu í Kabúl. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu yfir ábyrgð á árásinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert