Eftirskjálftar hamla leit

Eftirskjálftar hafa tafið björgunaraðgerðir á Ítalíu en mörg hundruð hafa mælst í dag, degi eftir skjálftann stóra sem reið yfir miðhluta Ítalíu í gær. Stærsti skjálftinn sem mælst hefur í dag er 4,3 að stærð og urðu björgunarsveitarmenn að yfirgefa byggingar og húsarústir um stundarsakir vegna hættu.

Rúmlega 4.000 björgunarsveitarmenn eru að störfum í leit að fólki á lífi. Þeir nota bæði stórvirkar vinnuvélar og handafl. Fram kemur á vef BBC, að staðfest sé að 241 hafi látist í skjálftanum sem var 6,2 að stærð. Miðja skjálftans, sem varð klukkan 03.36 að staðartíma í fyrri nótt, var í fjallahéraði um 100 km norðaustur af höfuðborginni Róm. 

Flestir hinna látnu bjuggu í Amatrice, eða 184. Alls létust 46 í Arquata og 11 í Accumoli. Þá hafa yfir 260 verið fluttir á sjúkrahús. Óttast er að tugir sitji enn fastir í rústum húsa.

Þrátt fyrir að svæðið sé strjálbýlt hefur það notið aukinna vinsælda meðal ferðamanna í sumar og af þeim sökum hafa yfirvöld átt erfitt með að setja fram nákvæma tölu yfir þá sem mögulega er saknað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert