Hellti sjóðandi vatni á samkynhneigt par

Marquez Tolbert og Anthony Gooden hlutu 2. og 3. stigs …
Marquez Tolbert og Anthony Gooden hlutu 2. og 3. stigs bruna.

Maður sem hellti sjóðandi vatni yfir samkynhneigt par þar sem það svaf hefur verið dæmdur í 40 ára fangelsi. Dómurinn var kveðinn upp í gær í Atlanta í Bandaríkjunum. Fórnarlömb mannsins hlutu alvarleg brunasár og þurftu bæði að undirgangast aðgerðir. 

Þeir Anthony Gooden og Marquez Tolbert, höfðu verið að hittast í um tvo mánuði og voru að gista heima hjá móður Gooden þegar atvikið átti sér stað. Kærasti móðurinnar, Martin Blackwell, bjó einnig á heimilinu og hafði mikla andúð á sambandinu.

Blackwell fór um miðja nóttina og sauð vatn í stórum potti, og hellti því svo yfir ungu mennina þar sem þeir sváfu. „Drullið ykkur út með alla þessa samkynhneigð,“ öskraði hann svo á þá. 

Í samtali við lögreglu sagði maðurinn: „Þeir voru fastir saman eins og tvær pylsur svo ég hellti smá heitu vatni á þá til að hjálpa þeim að losna í sundur.“ Sagðist hann hafa fyllst viðbjóði við það að sjá þá saman.

Mennirnir, sem eru 21 og 23 ára gamlir, hlutu annars og þriðja stigs bruna. Þeir settu af stað söfnun fyrir nokkru til að geta staðið undir lækniskostnaði, sem hefur verið hár. Í dómsalnum í gær mátti sjá þá fella tár þegar dómurinn var kveðinn upp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert